Þekkir þú útivistarperlur höfuðborgarsvæðisins?

Hellisgerði er við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Þar er ekki annað …
Hellisgerði er við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Þar er ekki annað hægt en að njóta náttúrunnar og gróðursins. Ljósmynd/Hellisgerði

Ýmsar faldar útivistarperlur finnast víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Reykvíkingar og aðrir sem búa á höfuðborgarsvæðinu þurfa sjaldan að leita langt til þess að komast í guðsgræna náttúruna en stundum er ánægjulegt að komast á notaleg útivistarsvæði innan þéttbýlisins. Þau eru víða og birtir mbl.is hér lista, sem er sannarlega ekki tæmandi, um nokkur þeirra sem eru ekki öllum kunnar nú þegar.

Hellisgerði

Í hrauninu í Hafnarfirði má finna Hellisgerði, skrúðgarð sem er þekktur fyrir miklar hraunmyndir sem ljá honum töfrandi blæ. Þar er meðal annars að finna fallegan gróður, krókótta malarstíga og tjörn. Garðurinn er næstum 100 ára gamall en hann varð til fyrir tilstuðlan Málfundafélagsins Magna árið 1922. Þar er ekki einungis hægt að njóta náttúrunnar heldur er einnig mögulegt á að kaupa sér ilmandi blómate þar. 

Önnur mynd úr Hellisgerði.
Önnur mynd úr Hellisgerði. Ljósmynd/Hellisgerði

Saltfiskmóinn

Saltfiskmóinn er grænt svæði milli Háteigskirkju, Nóatúns, Skipholts og Sjómannaskólans. Svæðið er fallega gróið og móinn er nýttur til útivistar af íbúum hverfisins. Móinn á stað í hjörtum margra en Vinir Saltfiskmóans skoruðu fyrr á þessu ári á borgarráð að samþykkja ekki tillögur um breytingar á svæðinu.

Af þaki Sjómannaskólans, saltfiskmóinn framundan til hægri.
Af þaki Sjómannaskólans, saltfiskmóinn framundan til hægri. mbl.is/Jim Smart

Seljatjörn

Í Breiðholti við Hólmasel, á milli Ölduselsskóla og Seljaskóla, er Seljatjörn sem er Breiðhyltingum mörgum vel kunn. Reykjavíkurborg vakti athygli á henni á Facebook-síðu sinni nýverið en þar segir að tjörnin sjálf auki á fegurð svæðisins og þar sé jafnvel hægt að svipast um eftir sílum.

„Grasið býður upp á ýmsan leik og á því er nóg pláss fyrir teppi og allt sem þarf fyrir góða lautarferð með vinum og fjölskyldu.“

Facebook-vinir Reykjavíkurborgar segja Seltjörn dásemd og draumastað.

Frá Seljatjörn sem er á milli Ölduselsskóla og Seljaskóla.
Frá Seljatjörn sem er á milli Ölduselsskóla og Seljaskóla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hlíðargarður

Hlíðargarður í Kópavogi er skipulagður í stíl evrópskra hallargarða og á fá sína líka á landinu. Hann er fyrsti skrúðgarðurinn í Kópavogi. Hlíðargarður er hálfgerður leynigarður, hann liggur á milli Lindarhvamms og Hlíðarhvamms og bara hægt að koma að honum um göngustíg. 

Hlíðargarður er staðsettur í Kópavogi og kennir þar ýmissa grasa.
Hlíðargarður er staðsettur í Kópavogi og kennir þar ýmissa grasa. Ljósmynd/Kópavogsbær

Víghólar

Á efsta punkti Digraness í Kópavogi eru Víghólar, náttúrusvæði sem friðlýst var árið 1983. Víghólar eru 74,4 metra yfir sjávarmáli en til stóð að byggja Digraneskirkju þar. Frá þeim áformum var fallið og er nú þar að finna útivistarsvæði. Þar eru jökulsorfnar grágrýtis klappir, svokölluð hvalbök, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar um svæðið.

„Jökulrákirnar segja til um stefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi í lok ísaldar. Víghólar og Borgarholt tilheyra víðáttumiklum hraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar.“

Víghólar eru á Digranesi.
Víghólar eru á Digranesi. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Garður á milli Austurbergs og Vesturbergs í Breiðholti

Reykjavíkurborg hefur vakið athygli á almenningsgarði sem er á milli Austurbergs og Vesturbergs í Breiðholti. Þar er að finna litrík trjágöng sem sírenur ramma inn og sinnir starfsfólk garðyrkju Reykjavíkurborgar garðinum með prýði og hefur komið upp hangandi körfum sem prýða ljósastaura á svæðinu.

Nafnlausi garðurinn í Breiðholti hefur vakið athygli.
Nafnlausi garðurinn í Breiðholti hefur vakið athygli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Rósagarðurinn 

Rósagarðurinn er hluti af Trjásafninu í Meltungu sem er austast í Fossvogsdal og er eitt stærsta trjásafn landsins. Þar eru nokkrir þemagarðar; Yndisgarðurinn, Aldingarðurinn, Sígræni garðurinn og Rósagarðurinn. Í þeim síðastnefnda er að finna 190 tegundir og yrki rósa, þar á meðal fágætar norrænar og kanadískar rósir. 

Rósir í blóma í Rósagarðinum í Kópavogi.
Rósir í blóma í Rósagarðinum í Kópavogi. Ljósmynd/Kópavogsbær
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert