Allt stjórnkerfið keyrt á hræðslu

Jeffrey Guarino, matsveinn og fyrrverandi hermaður, hefur búið á Íslandi …
Jeffrey Guarino, matsveinn og fyrrverandi hermaður, hefur búið á Íslandi frá árinu 2002. Ljósmynd/Aðsend

Sú trú Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, að hann þurfi vopnaða lífverði og helst að vera vopnaður sjálfur, sýnir að hann veit ekkert um landið sem honum er ætlað að starfa í. Þetta segir nafni hans, Jeffrey Guarino, Bandaríkjamaður sem er búsettur hér á landi.

Jeffrey hefur búið á Íslandi frá árinu 2002 en hann á íslenska konu og tvö börn. Þá fékk hann nýlega íslenskan ríkisborgararétt.

Á 18 árum sínum hér á landi, segist Jeffrey aldrei hafa upplifað ofbeldi eða hræðslu í nánd við það sem hann þekki frá heimahögunum. „En þetta kemur mér ekki á óvart. Flestir embættismenn Trumps eru annaðhvort í fangelsi, sæta rannsókn eða hafa annan vafasaman bakgrunn,“ segir Jeffrey. „Að skipa svo taktlausan mann kemur ekki á óvart.“

Donald Trump forseti skipaði Gunter sendiherra í júlí í fyrra. Gunter hafði enga reynslu úr utanríkisþjónustunni en hann er læknir að mennt og situr í stjórn samtaka gyðinga innan Repúblikanaflokksins (RJC). Hann hafði áður stutt kosningasjóði forsetans ríkulega.

Jeffrey Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fyrir miðju.
Jeffrey Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fyrir miðju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrætt fólk geri heimskulega hluti

Jeffrey telur að starf sendiherra á Íslandi ætti ekki að vera sérlega flókið. „Starf sendiherrans er að halda góðum tenglsum við ríkið [sem hann býr í]. Ísland og Bandaríkin eru að mörgu leyti svipuð. Það er ekki eins og hann sé sendiherra í Sádí-Arabíu þar sem vestræn gildi eru víðsfjarri,“ segir hann.

Að sögn Jeffrey er núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna drifin áfram á ótta. „Það er ekki mjög góður leiðarvísir. Þegar fólk er óttaslegið gerir það venjulega heimskulega hluti,“ segir Jeffrey og nefnir sem dæmi söguhetju úr hryllingsmynd sem lendir í því að vasaljósið verður batteríslaust eftir að brotist er inn hjá henni og ákveður að fara niður í dimman kjallarann til að leita að nýrri rafhlöðu.

Jeffrey segist þó ekki skammast sín sérstaklega fyrir sendiherrann. Það sé óþarft enda liggi alveg ljóst fyrir að ríkisstjórn Bandaríkjanna og erindrekar þeirra séu ekki fulltrúar nema hluta þjóðarinnar. „Það er mikil sundrung í Bandaríkjunum, en fólk veit að stjórnvöld tala ekki fyrir meirihluta hennar.“

Eins óamerískt og það verður

Jeffrey segir það vera ánægjulegt að hafa fengið ríkisborgararétt á Íslandi þar sem hann upplifi sig öruggari og bjartsýnni á framtíðina en í heimalandinu. „Ef ég hlusta á ráðherra [á Íslandi] þá virðast þeir snjallir. Jafnvel þegar ég er ekki sammála þeim þá veit ég að þeir eru venjulegt fólk sem áttar sig á vandamálunum,“ segir Jeffrey.

Þrátt fyrir að vera nú Íslendingur, stendur honum þó vitanlega ekki á sama um heimalandið en hann hefur áður rætt við mbl.is um fyrirferðarmikil mótmæli gegn kynþáttaofbeldi í Bandaríkjunum. „Trump-stjórnin er að senda leynilögreglumenn út á götur til að handtaka fólk. Það er svo „óamerískt“ að það er ótrúlegt,“ segir Jeffrey.

Hann bindur þó vonir við að eitthvað breytist eftir forsetakosningar í haust. „Ég reyni að vera eins jákvæður og ég get, en ég er ekki jákvæð manneskja að eðlisfari.“

mbl.is