21 smit í ellefu aðskildum málum

Í morgun funduðu almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis vegna þeirra …
Í morgun funduðu almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis vegna þeirra smita sem greinst hafa á Íslandi frá 8. júlí. mbl.is/Kristinn Magnússon

21 er með staðfest smit vegna kórónuveirunnar hér á landi og eru 173 í sóttkví. Um ellefu aðskilin mál er að ræða og í tveimur þeirra hefur uppruni smits ekki fengist staðfestur. Íslensk erfðagreining hefur raðgreint sýni til þess að finna uppruna smitanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum, en þar segir jafnframt að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafi fundað í morgun vegna smita sem greinst hafa á Íslandi síðan 8. júlí.

Þeir einstaklingar sem eru með staðfest smit hafa sýnt einkenni veirunnar, en enginn er alvarlega veikur og enginn á sjúkrahúsi. Áríðandi er að halda því til haga að þeir sem fara í sýnatöku haldi sig heima þar til neikvæð niðurstaða hefur borist.

„Með aðgerðum almannavarna, embættis landlæknis og stjórnvalda hefur hingað til náðst góður árangur í að hefta útbreiðslu Covid-19 hér á landi. Að fólk hugi vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Þar er handþvottur og sótthreinsun lykilatriði. Rétt er að brýna fyrir almenningi að gera slíkt áfram og að þjónustufyrirtæki og stofnanir sjái til þess að sóttvarnir séu til staðar,“ segir í tilkynningu, auk þess sem minnt er á helstu einkenni COVID-19 sýkingar sem minna á venjulega flensu:

  • Hiti 
  • Hósti 
  • Bein- og vöðvaverkir
  • Þreyta
  • Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt
  • Breytingu eða tapi á bragð- og lyktarskyni er lýst hjá 20–30% sjúklinga

Sýni einstaklingur einkenni eða vakni grunur um smit í nærumhverfi skal hinn sami halda sig heima, hafa samband við heilsugæslu sína eða í gegnum netspjall á heilsuvera.is og óska eftir sýnatöku. Einnig er hægt að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.

Komi upp smit er smitrakning lykilatriði til þess að kanna mögulega útbreiðslu. Því minna almannavarnir og landlæknir á mikilvægi þess að fólk sæki Rakning C-19 appið í síma sína. Slíkt getur auðveldað smitrakningu.

Mikilvægar upplýsingar um Covid-19 má finna á vefsíðunni www.covid.is

mbl.is