Jarðskjálftar yfir 3 í Kötlu „óþægilegir“

Undir Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla.
Undir Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla. mbl.is/Rax

Engar vísbendingar eru um að Katla sé að fara að gjósa en það er alltaf óþægilegt þegar þar verða jarðskjálftar yfir þremur að stærð.

Þetta segir Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurð út í jarðskjálftana tvo sem urðu í Mýrdalsjökli í morgun. Annar þeirra mældist 3,4 og er það stærsti skjálftinn sem hefur mælst þar í tæp tvö ár.

Kristín segir að síðasta ár hafi verið óvenjurólegt í Mýrdalsjökli. Þá sé mjög algengt að virknin fari að aukast á sumrin og haustin. Hún segir árstíðabundna sveiflu í virkninni. Hefur þetta að gera með vatnabúskapinn í kerfinu og samspil við jarðhitasvæðið.

Ekkert meira hefur gerst í kjölfar skjálftanna tveggja í morgun en mjög virkt jarðhitakerfi er undir Mýrdalsjökli. Vötn eru innlyksa í jöklinum og eru þau að stækka og minnka. Stundum hleypur úr þessum kötlum og með því þarf Veðurstofan að fylgjast.

Í fyrra var talið líklegt að það myndi hlaupa úr ákveðnum katli og settur var upp búnaður til að fylgjast með honum. Ekkert gerðist í katlinum en þess í stað hljóp úr þeim sem var við hliðina á honum, að því er Kristín greinir frá. Engin ástæða er til að ætla að slíkt sé yfirvofandi núna en verið er að mæla leiðnina í ám sem gefur vísbendingar um hversu mikið jarðhitavatn er að koma fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert