Lægð heiðrar verslunarmenn

Kort/Veðurstofa Íslands

Fremur tíðindalaust verður af veðri þangað til á föstudag. Þá stefnir í að lægð nálgist landið úr suðri með blauta austanátt og virðist hún ætla að heiðra verslunarmenn með nærveru sinni um helgina að sögn veðurfræðings. Í dag verður hlýjast syðst eða allt að 19 stiga hiti.

„Í dag er spáð norðlægri átt 5-10 m/s en öllu hvassari vindi austanlands fram eftir degi. Skýjað með köflum og þurrt að kalla norðvestan til á landinu en súld eða rigning með köflum norðaustan til, einkum seinnipartinn. Hiti á bilinu 7 til 12 stig nyrðra yfir daginn en léttskýjað sunnanlands og hiti 12 til 18 stig þar. Á morgun er víða hægur vindur í kortunum og skúrir hér og hvar, en austankaldi með suðuströndinni. Hiti áfram svipaður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðlæg átt 5-10 m/s, en 8-15 við ströndina að austanverðu. Léttskýjað sunnan- og vestanlands, annars skýjað með köflum, en dálítil rigning á norðaustanverðu landinu, einkum seinnipartinn. Lægir víðast hvar í kvöld. Hiti yfirleitt 6 til 12 stig norðan til, annars 12 til 19 stig, hlýjast syðst.

Á þriðjudag:

Hæg breytileg átt, en norðvestan 3-8 við NA- og SV-ströndina. Bjart og þurrt sunnan heiða, annars skýjað með köflum og dálítil væta. Hiti 8 til 15, svalast við N-ströndina, en allt að 19 stig á S-landi.

Á miðvikudag:
Hægviðri og skýjað en úrkomulítið. Hiti 8 til 14 stig.

Á fimmtudag:
Austan 3-8 m/s, en hvassari við S-ströndina um kvöldið. Skýjað með köflum en þurrt að kalla og hiti 9 til 16 stig.

Á föstudag:
Suðaustlæg átt 5-15 m/s, hvassast við S-ströndina. Rigning, einkum SA-lands, og áfram svipaður hiti.

Á laugardag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu, en bjartviðri norðan heiða. Hiti 8 til 18 stig, svalast á A-landi.

Á sunnudag:
Líkur á fremur hægri breytilegri átt með vætu og mildu veðri, en sunnanátt og svalara A-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert