Nýtt smit – næstu dagar lykilatriði

Samtals eru nú 22 virk smit á landinu, flest hafa …
Samtals eru nú 22 virk smit á landinu, flest hafa þau orðið innanlands og að auki bíður eitt smit sem greindist á landamærum nánari athugunar, hvort það sé virkt eða ekki. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Eitt smit bættist í hóp virkra smita á Íslandi nú síðdegis, þegar það var staðfest af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Það tengist hópsýkingunni sem var staðfest í gær. 

Smitið hefur ekki verið raðgreint, þannig að ekki er vitað nákvæmlega hvaða anga hópsýkingarinnar það tengist. Það hefur þó faraldsfræðileg tengsl við hópinn, segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, í samtali við mbl.is.

Í umræddri hópsýkingu er að finna fólk úr ólíkum áttum og óljóst er hver uppruni smitsins er. Samtals eru nú 22 virk smit á landinu, flest hafa þau orðið innanlands og að auki bíður eitt smit sem greindist á landamærum nánari athugunar, hvort það sé virkt eða ekki.

Kamilla segir enn ekki ástæðu til að herða á samkomutakmörkunum á Íslandi. „En ef við sjáum anga koma sem tengjast ekki hópsýkingunni núna faraldsfræðilega en eru með sömu veiru, þá bendir það til útbreiddara smits en við vonuðumst til. Sömuleiðis ef við sjáum smit hjá einstaklingum sem voru ekki taldir þurfa að fara í sóttkví þá þurfum við að skoða það mjög alvarlega að mæla með harðari aðgerðum,“ segir Kamilla.

Ekki tillaga um að herða núgildandi ráðstafanir 

Þegar hafa samskipti átt sér stað á milli sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra, þar sem komið hafa fram tillögur sóttvarnalæknis um breytingar á ráðstöfunum vegna veirunnar. Úr því að í þeim felst ekki tillaga um að herða núgildandi ráðstafanir er líklegt að þær snúi að þeim tilslökunum sem fyrirhugaðar voru 4. ágúst. Þá áttu 1.000 að mega koma saman og veitingastaðir að mega vera með opið til miðnættis.

Umrædd hópsýking kemst í hámæli nú í aðdraganda stærstu ferðahelgar ársins næstu helgi. Skemmtanahald verður þá mikið. „Næstu dagar eru algerlega lykilatriði í að upplýsa okkur um hvernig við eigum að bregðast við í framhaldinu,“ segir Kamilla.

mbl.is