Gögn kvöldsins ráða úrslitum

Alma Möller landlæknir: „Við erum með sam­fé­lags­leg smit í gangi …
Alma Möller landlæknir: „Við erum með sam­fé­lags­leg smit í gangi og við höf­um ekki getað rakið þau öll. Það er ákveðið áhyggju­efni og eins og er eru óþægi­lega marg­ir laus­ir end­ar, finnst okk­ur. Það hlaut að koma að þess­um tíma­punkti, að eitt­hvað gerðist, því okk­ur finnst fólk held­ur vera farið að slaka á. Þannig að nú erum við að hvetja ein­stak­linga, fyr­ir­tæki og alla til að herða smit­varn­ir.“ Ljósmynd/Lögreglan

Það kemur til greina að minnka leyfilegan fjölda á samkomum og setja á tveggja metra reglu vegna ástands kórónuveirufaraldursins hér á landi. Niðurstaða fundar almannavarna, fulltrúa sóttvarnalæknis, landlæknis og heilbrigðisráðherra sem lauk rétt fyrir sex var sú að staðan yrði áfram metin í kvöld, rýnt í niðurstöður sýna og fleiri gögn, og síðan fundað aftur í fyrramálið.

„Þær leiðir sem eru uppi á borðinu eru að fækka í fjöldatakmörkunum og setja tveggja metra regluna á. Þetta eru möguleikar sem gætu verið uppi á borðinu en engin ákvörðun hefur verið tekin,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna, við mbl.is. „Yfirvöld hafa áhyggjur af komandi helgi í ljósi þeirra smita sem eru í samfélaginu af því að það verða svo margir á faraldsfæti og við verðum að koma í veg fyrir frekari smit og smitleiðir.“ 

Eins og Jóhann segir var engin ákvörðun tekin í kvöld. „Málið var skoðað frá öllum hliðum en við erum enn að bíða eftir niðurstöðu sýna og öðrum gögnum sem eru í vinnslu núna. Það skiptir máli að sjá þau áður en ákvörðun er tekin. Hópurinn kemur aftur til með að hittast í fyrramálið,“ segir Jóhann.

Vitað er um 24 virk kórónuveirutilfelli í landinu og 14 þeirra eru innanlandssmit. Þegar hefur fyrirhuguðum tilslökunum samkomutakmarkana 4. ágúst verið frestað um tvær vikur vegna ástandsins. Verslunarmannahelgin næstu helgi veldur áhyggjum, þar sem hvorki hefur tekist að rekja uppruna stórs hluta af innanlandssmitunum né ná almennilega utan um umfang hópsmitsins.

mbl.is