Símalínur rauðglóandi eftir fund dagsins

Heilsugæslan í miðbæ Reykjavíkur.
Heilsugæslan í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Karl Blöndal

Töluvert álag var á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar upplýsingafundar vegna kórónuveiru sem haldinn var fyrr í dag en fólk hringdi inn og vildi komast í sýnatöku. Á fundinum var fólk hvatt til þess að hafa samband ef einkenni gerðu vart við sig.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við mbl.is að línurnar á heilsugæslustöðvunum hafi yfirleitt verið rauðglóandi eftir upplýsingafundina í mars og apríl.

Hún segir að töluvert hafi verið hringt í dag og augljóst sé að fólk fylgist vel með.

Ragnheiður segir að allir sem þurfi sýnatöku komist í sýnatöku. Áætlað er að sýnataka á höfuðborgarsvæðinu verði samræmd og fólk með einkenni geti farið í sýnatöku í tjaldi, sem á eftir að setja upp, á bílastæðinu við Orkuhúsið við Suðurlandsbraut. 

„Við erum enn að taka bara sýni hjá fólki sem er með einkenni,“ segir Ragnheiður en á upplýsingafundinum í dag kom fram að unnið sé að því að setja af stað skimun í sam­starfi við Íslenska erfðagrein­ingu að nýju til þess að reyna að henda reiður á upp­runa þeirra smita sem komið hafa upp í sam­fé­lag­inu und­an­farna daga, sem og á um­fangi smita í sam­fé­lag­inu.

Helstu einkenni COVID-19-sýk­ing­ar minna á venju­lega flensu:

  • Hiti 
  • Hósti 
  • Bein- og vöðva­verk­ir
  • Þreyta
  • Melt­ing­ar­ein­kenni (kviðverk­ir, ógleði/​upp­köst, niður­gang­ur) eru ekki mjög áber­andi með COVID-19 en eru þó þekkt
  • Breyt­ingu eða tapi á bragð- og lykt­ar­skyni er lýst hjá 20–30% sjúk­linga

Sýni ein­stak­ling­ur ein­kenni eða vakni grun­ur um smit í nærum­hverfi skal hinn sami halda sig heima, hafa sam­band við heilsu­gæslu sína eða í gegn­um net­spjall á heilsu­vera.is og óska eft­ir sýna­töku. Einnig er hægt að hafa sam­band við Lækna­vakt­ina í síma 1700.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert