Sjö smitaðir lögðu hellur við heilsugæsluna

Sjö hafa greinst með kór­ónu­veiruna á Akranesi síðustu daga og …
Sjö hafa greinst með kór­ónu­veiruna á Akranesi síðustu daga og eru Skaga­menn hvatt­ir til að fara sér­stak­lega var­lega næstu daga vegna hópsmits­ins. Ljósmynd/Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Sjö erlendir verkamenn á Akranesi sem smitaðir eru af COVID-19 hafa undanfarið verið við framkvæmdir á lóð Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í bænum. 

Þeir voru á vegum verktaka við hellulagningu á lóð heilsugæslunnar í síðustu viku en að sögn Ásgeirs Ásgeirssonar, staðgengils forstjóra hjá stofnuninni, voru verkamennirnir ekki í neinum samskiptum við fólk inni í húsinu. Smithætta er því ekki talin hafa skapast.

Fleiri en þessir sjö hafa ekki greinst á Akranesi eftir að sýni voru tekin úr nærumhverfi þeirra. Verkamennirnir, sem mynda einn vinnuhóp og búa saman í tveimur íbúðum, eru í einangrun. Aðeins einn þeirra veiktist en hinir eru sagðir hafa sýnt lítil einkenni. Yfirmaður þeirra hjá verktakafyrirtækinu sér þeim fyrir vistum á heimili þeirra.

Skellt í lás 

Heilbrigðisstofnunin hefur skellt í lás í kjölfar þessarar atburðarásar og er starfsemin komin í sama horf og var í miðjum faraldri. Ásgeir segir þannig að heimsóknir séu bannaðar og að fólk þurfi að hafa sérstaklega samband með brýn erindi til að koma inn í stofnunina. 

„Við höfum áhyggjur af þessu en við vonum það besta. Það er enn ekki komið í ljós hve mikið þeir fóru um bæinn, en verið er að kanna það,“ segir Ásgeir.

Þessi sjö smit eru helmingur þeirra virku innanlandssmita sem nú er vitað um á landinu. Upphaflega var talið að einn einstaklingur í þessum hópi verkamanna hafi borið smitið í hina eftir að hann kom frá útlöndum og viðhafði sökum misskilnings ekki heimkomusmitgát.

Nú þykir líklegra að hann hafi sjálfur smitast á Íslandi eftir heimkomu en óljóst er hvar. Þannig hefur veiran sem greindist í umræddum einstaklingi sama mynstur og greindist í fótboltapabba á Rey Cup um helgina, án þess að þessir tveir hafi verið í nokkrum samskiptum.

mbl.is