Tilslökunum takmarkana frestað um tvær vikur

mbl.is greindi frá því í gær að sóttvarnalæknir hefði sent …
mbl.is greindi frá því í gær að sóttvarnalæknir hefði sent heilbrigðisráðherra nýjar tillögur er vörðuðu afléttingu þessa. Hafa þær nú verið staðfestar af ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilslökunum samkomutakmarkana sem taka áttu gildi nú eftir verslunarmannahelgi, eða 4. ágúst, verður frestað um tvær vikur og taka þess í stað gildi 18. ágúst.

Þetta staðfestir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

„Það er full ástæða til að endurmeta stöðuna,“ segir Svandís. „Í ljósi þessara samfélagssmita sem hafa verið að greinast undanfarna daga þá vorum við sóttvarnalæknir sammála um að það væri ekki tímabært að slaka á eins og hafði verið gert ráð fyrir eftir verslunarmannahelgi.“

Umræddar tilslakanir snúa að því að rýmka átti fjöldatakmarkanir úr 500 í 1.000 og opnunartíma veitinga- og skemmtistaða frá kl. 23 til miðnættis.

mbl.is greindi frá því í gær að sóttvarnalæknir hefði sent heilbrigðisráðherra nýjar tillögur er vörðuðu afléttingu þessa. Hefur ráðherra nú staðfest þær.

Aðspurð hvort komið hafi til skoðunar að herða enn frekar þær takmarkanir sem í gildi eru segir Svandís fulla ástæðu til þess að skoða stöðuna. 

„Við þurfum að ná utan um stöðuna. Við eigum ákveðin verkfæri til að gera það, en það sem skiptir mestu máli akkúrat núna, í dag og næstu daga, er að við rifjum upp hér innanlands það sem við kunnum best, það er að vera öll almannavarnir, gæta að einstaklingsbundnum smitvörnum, þvo okkur um hendurnar og spritta, halda tveggja metra fjarlægð og geyma knúsin þangað til seinna.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert