Boltinn hjá Svandísi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Þórólfur hefur sent …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Þórólfur hefur sent Svandísi minnisblað þar sem hann leggur til hertar aðgerðir vegna kórónuveirunnar á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók í kvöld við minnisblaði frá embætti sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á Íslandi vegna kórónuveirunnar. Á morgun tilkynnir hún til hvaða aðgerða verður gripið, daginn áður en stærsta ferðahelgi ársins fer í hönd. Hingað til hefur hún í flestu farið eftir tillögum sóttvarnalæknis.

Óvíst er hvaða aðgerðir ganga í gildi en til umræðu hefur verið að fækka leyfilegum fjölda fólks á samkomum, að tveggja metra reglan verði aftur að formlegri reglu og að breytt fyrirkomulag verði tekið upp á landamærum landsins, meðal annars hugsanlega þannig að ferðamönnum verði einnig gert að viðhafa heimkomusmitgát.

Smit hafa enda verið að berast inn í landið, líklega með erlendum ferðamönnum, telja sóttvarnayfirvöld. Virk smit á Íslandi eru 28 og þar af flest innanlandssmit, sem þó eiga líklega uppruna sinn hjá ferðamönnum.

RÚV sagði frá því í tíufréttum að ráðherra hefði þegar tekið við minnisblaðinu.

Tillögurnar gangi ekki of langt

Staðgengill sóttvarnalæknis staðfesti við mbl.is fyrr í kvöld að embættið legði til breytingar á ráðstöfunum hér á landi: „Ég, Þórólf­ur og aðrir sem kom­um að und­ir­bún­ingi minn­is­blaðsins, höf­um reynt að skoða málið frá sem flest­um hliðum og leggja það til sem við telj­um að sé virki­lega nauðsyn­legt og gangi ekki allt of langt eða svo langt að það skapi ein­hvern ótta sem ekki er til­efni til,“ sagði Kamilla Sigríður Jósefsdóttir.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis. Ljósmynd/Lögreglan

Þegar Kamilla var spurð hvort mælt verði gegn því að fólk ferðist um landið um helgina sagði hún: „Við erum kannski ekki á al­veg sama stað og um pásk­ana eða telj­um okk­ur ekki vera það, en það er ým­is­legt sem er farið yfir í þessu minn­is­blaði. Það verður svo að koma í ljós hvað ráðherra tel­ur við hæfi að gera,“ seg­ir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert