Mæla með breytingum á sóttvarnaráðstöfunum

Upplýsingafundur almannavarna 28. júlí. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, og …
Upplýsingafundur almannavarna 28. júlí. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Embætti sóttvarnalæknis mun mæla með ákveðnum breytingum á ráðstöfunum vegna kórónuveirunnar á Íslandi í ljósi nýs hópsmits. Verið er að leggja lokahönd á minnisblað sem verður sent ráðherra í kvöld.

Um efni tillagnanna segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis: „Við mælum með ákveðnum breytingum frá því sem nú er en það er ekki endilega eins og verið hefur,“ segir hún og vísar þar til þeirra ráðstafana sem voru gerðar hér á landi í fyrstu bylgju veirunnar.

„Ég, Þórólfur og aðrir sem komum að undirbúningi minnisblaðsins höfum reynt að skoða málið frá sem flestum hliðum og leggja það til sem við teljum að sé virkilega nauðsynlegt og gangi ekki allt of langt eða svo langt að það skapi einhvern ótta sem ekki er tilefni til,“ segir Kamilla.

Ekki á alveg sama stað og um páskana

Hún biðst undan því að fara nánar út í tillögurnar en segir að í þeim felist ýmislegt varðandi viðbrögð í samfélaginu, bæði hjá einstaklingum og stofnunum, svo og ábyrgðaraðilum viðburða þar sem margir koma saman.

Verslunarmannahelgin er fram undan. Þegar Kamilla er spurð að því hvort mælt verði gegn því að fólk ferðist um landið í minnisblaðinu segir hún: „Við erum kannski ekki á alveg sama stað og um páskana eða teljum okkur ekki vera það, en það er ýmislegt sem er farið yfir í þessu minnisblaði. Það verður svo að koma í ljós hvað ráðherra telur við hæfi að gera,“ segir hún.

Heilbrigðisráðherra fær minnisblaðið í hendurnar innan stundar og tekur þá afstöðu til þess. Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni hans er ekki líklegt að ráðherra greini frá efni minnisblaðsins fyrr en á morgun. Komið hef­ur fram að til umræðu sé að gera tveggja metra viðmið að tveggja metra reglu og minnka leyfi­leg­an fjölda á sam­kom­um, sem nú er 500.

28 virk til­felli af kór­ónu­veirunni eru á landinu. Fjög­ur inn­an­lands­smit greind­ust í gær, þrjú dag­inn áður og sex dag­inn þar áður, en þá höfðu ekki eins mörg inn­an­lands­smit greinst á land­inu á ein­um degi frá 21. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert