Tugir yfirheyrðir vegna brunans í Vesturbæ

Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg.
Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg. mbl.is/Arnþór

Á þriðja tug vitna hafa verið yfirheyrð í tengslum við brunann við Bræðraborgarstíg 1 sem varð 25. júní síðastliðinn. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild.

Meðal þeirra sem voru yfirheyrðir eru íbúar hússins og einstaklingar sem urðu vitni að brunanum.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

Maðurinn sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa kveikt í húsinu er enn í gæsluvarðhaldi, og er hann sakaður um íkveikju sem olli almannahættu, um að hafa stefnt lífi fólks í hættu og að hafa brotið gegn valdstjórninni. Þá er bruninn rannsakaður sem manndráp af ásetningi.

Þrír létust í brunanum við Bræðraborgarstíg. Af þeim fjórum sem lögðust inn á spítala hafa þrír verið útskrifaðir, en einn er enn þungt haldinn. Margir misstu heimili sitt og eigur í brunanum.

mbl.is