Aldrei séð svona marga koma í 38 ára sögu

Heilbrigðisstarfsmaður með grímu.
Heilbrigðisstarfsmaður með grímu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir fundinn í morgun varð sprenging bæði hjá okkur í þjónustuveri og í vefpöntunum og búðin hreinlega fylltist,“ segir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Rekstrarvara. Kynnt var til sög­unn­ar í dag grímu­skylda í völd­um al­menn­ings­sam­göng­um og þar sem fólk getur ekki viðhaft tveggja metra reglu.

Grímuskyldan fylgir hertum aðgerðum vegna kórónuveiru, en aðgerðirnar taka gildi á morgun og gilda í að minnsta kosti til 13. ágúst.

Einar segir að bílaplanið í Rekstarvörum sé troðfullt og röð sé út úr búðinni. „Í 38 ára sögu fyrirtækisins höfum við aldrei séð svona margt fólk koma. Það varð sprenging.

Hann segir að þetta hafi gerst um leið og fundi lauk. Stór fyrirtæki og stofnanir panti vörur sínar mörg hver hjá Rekstrarvörum. Auk þess séu minni fyrirtæki og einstaklingar að leita að grímum, spritti og öðru sem gott er að hafa við höndina nú þegar samkomutakmarkanir verða hertar á morgun.

Fólk sprittar sig af krafti.
Fólk sprittar sig af krafti. mbl.is/Árni Sæberg

„Við getum ekki haldið tveggja metra fjarlægð alls staðar og þá þarf fólk að vera með grímu,“ segir Einar.

Lagerstaða hlífðarfatnaðar, spritts og handsápu er að sögn Einars mjög góð og hefur verið það síðan í janúar. „Við höfum haldið góðri birgðastöðu síðan þá, því í okkar huga var COVID ekkert að fara fyrr en búið væri að bólusetja ákveðinn hluta jarðarbúa.“

Einar er ekki með nákvæma tölu um hversu margar grímur hafi rokið út í dag og segist „vera úti á miðju hafi“ og sjái af þeim sökum ekki til lands. Hann geti hins vegar fullyrt að grímurnar rjúki út eins og heitar lummur.

„Við eigum nóg til og það er enginn vöruskortur. Fólk getur verið rólegt.“

Hámark 20 grímur á mann

Aðalbjörg Eggertsdóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá Lyfjum og heilsu, segir sömuleiðis að um leið og blaðamannafundinum í morgun lauk hafi grímusalan rokið upp. Grímurnar eru fengnar frá ólíkum birgjum og segir Aðalbjörg að ekki sé of mikið til af þeim í landinu. Á einum tímapunkti voru grímur frá 15-20 birgjum til sölu í versluninni og verðið er því æði ólíkt á grímunum, allt frá 68 krónum til 800 króna.

„Við erum að gera okkar besta til að allir sem vilja fái grímur,“ segir Aðalbjörg, en hver einstaklingur getur að hámarki keypt 20 grímur. Þannig fór maður í eina verslunina, keypti 20 grímur, fór í burt í 20 mínútur og kom þá aftur til að kaupa fleiri.

Eftirspurnin rauk sömuleiðis upp í Lyfju þegar tilkynnt var um grímuskyldu í vissum aðstæðum, segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri við mbl.is. „Okkar hlutverk þegar svona kemur upp er að bregðast við og tryggja að það sé nóg til af sóttvarnavörum og við höfum ekki farið í neinar verðbreytingar sem tengjast þessu. Það er alveg á hreinu.“ 

mbl.is