Fríð sýnum en engin baráttukona

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir furðar sig á upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar um Sigríði …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir furðar sig á upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar um Sigríði í Brattholti og spyr hvort stofnunin geti ekki lagfært textann. Ljósmynd/Rósa Braga

Ekki er minnst orði á baráttu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti gegn því að Gullfoss yrði virkjaður á upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar sem stendur við fossinn. Þess í stað er skilmerkilega greint frá því að Sigríður hafi verið meðalkona á hæð, nokkuð þrekin og þótt fríð sýnum á yngri árum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, vekur athygli á skiltinu í færslu á Facebook, en þar segist hún ekki geta orða bundist vegna textans þar sem ekkert sé minnst á það hvernig Sigríður opnaði augu almennings fyrir gildi og fegurð fossins og mikilvægi hans og annarra ósnortinna náttúruperla.

Skiltið er á fjórum tungumálum og segist Ingibjörg ekki geta ímyndað sér annað en útlendingar sem lesi textann hljóti að velta því fyrir sér hvað þeim komi þessi kona við, sem vann sér helst til frægðar að fylgja ferðamönnum að fossinum, ef marka má skiltið.

Sigríður Tómasdóttir fæddist árið 1871 á bænum Brattholti en þangað komu ferðalangar helst á leið sinni að Gullfossi. Hennar er, sem kunnugt er, helst minnst fyrir ötula baráttu sína gegn því að Gullfoss yrði virkjaður en eftir að Gullfoss komst í hendur erlends hlutafélags sem hugðist virkja hann hótaði Sigríður því að við fyrstu skóflustungu myndi hún kasta sér í fossinn. Virkjunaráform runnu síðar út í sandinn og leigusamningur hins erlenda félags féll úr gildi, líkt og greint er frá á vef Bandalags íslenskra skáta en þar segir að án staðfestu og fórnfúsrar baráttu Sigríðar væri óvíst hvort við ættum Gullfoss sem þá ósnortnu þjóðargersemi sem hann er í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina