Grímuballið byrjar

Grímur hafa verið sjaldséðar á götum borgarinnar, nema þá helst …
Grímur hafa verið sjaldséðar á götum borgarinnar, nema þá helst hjá erlendum ferðamönnum. Það gæti breyst nú. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þess er ekki krafist að fólk noti grímur í styttri ferðum í almenningssamgöngum innanbæjar. Þetta kemur fram í leiðbeiningum almannavarna vegna notkunar á hlífðargrímum.

Líkt og fram kom á blaðamannafundi stjórnvalda í dag verður grímuskylda innleidd í fyrsta sinn á Íslandi á morgun, föstudag, og þess þá krafist að fólk noti grímur sem hylja nef og munn þegar ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga.

Í leiðbeiningum Landlæknisembættisins, sem sjá má hér að neðan, segir að hlífðargrímur eigi að nota við eftirtalin tilefni:

  • í öllu áætlunarflugi innanlands og milli landa
  • í farþegaferjum ef ekki er hægt að hafa 2 metra fjarlægð milli einstaklinga
  • í öðrum almenningssamgöngum ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að 2 metra fjarlægð sé milli einstaklinga. Í innanbæjarsamgöngum þar sem ferð er gjarnan um 15-30 mínútur eru það þó fyrst og fremst einstaklingar í áhættuhópum sem ættu að nota grímu
  • Við þjónustu við einstaklinga sem krefst návígis, s.s. snyrtingu, nudd, sjúkraþjálfun, við tannlækningar, við augnlækningar og heimahjúkrun
  • Í öllum öðrum aðstæðum gilda reglur um fjöldatakmarkanir og 2 metra fjarlægð milli einstaklinga. Hlífðargrímur koma ekki í stað þess.

Ekki er þó gerð krafa um að börn fædd 2005 eða síðar beri grímur. Ekki er heldur mælt með almennri grímunotkun á almannafæri. Nánari útlistunar er að vænta á morgun um hvaða skilyrði grímur þurfa að uppfylla og hvenær óhætt er að nota fjölnota grímur. 

Grímuskylda í Strætó á morgun en framtíðin óljós 

Á blaðamannafundi stjórnvalda fyrr í dag voru grímureglur sagðar ná til almenningssamgangna og gengu margir því út frá því að það ætti við um strætó. Svo er þó ekki.

Í samtali við mbl.is segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, að innanbæjarstrætó lúti öðrum lögmálum en lengri ferðalög. Ferðirnar séu styttri og fólk dvelji því í styttri tíma nálægt óskyldum einstaklingum heldur en í lengri ferðalögum á borð við flugferðir og ferjusiglingar.

Fyrr í dag hafði Strætó gefið út að grímuskylda tæki gildi hjá fyrirtækinu á morgun enda gerðu menn ráð fyrir að reglur um almenningssamgöngur giltu um strætisvagna. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að forsvarsmenn fyrirtækisins muni funda með almannavörnum á morgun en þangað til verði grímuskylda í vögnunum eins og þegar hafði verið kynnt.

Hann bendir á að ekki sé hlaupið að því að virða tveggja metra reglu í strætisvögnum. Það hafi gengið ágætlega í vor þegar samkomubann stóð sem hæst og einungis 20 manns máttu vera koma saman, en nú þegar umferðin er meiri sé óvíst hvernig það gangi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert