Grímuskylda vegna annarra aðstæðna en í vor

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis. mbl.is/Árni Sæberg

Kynnt var til sögunnar í dag grímuskylda í völdum almenningssamgöngum, þar á meðal í innanlandsflugi og um borð í ferjum. Spurð hvers vegna gripið sé til þessa ráðs nú, en ekki í vor þegar staðfest smit í samfélaginu voru fleiri, segir Kamilla Sig­ríður Jós­efs­dótt­ir, staðgeng­ill sótt­varna­lækn­is, að uppi séu nú aðrar aðstæður en þá.

„Kveikjan að því að taka þetta skref er að við vorum með sóttkví frá landamærum; þú máttir ekki fara í rútu frá Keflavík til Reykjavíkur. Núna ferðu í skimunina og ert ekki búinn að fá niðurstöðu, en þú mátt samt fara upp í rútu á þinn áfangastað. Þetta er því gert til að hindra að fólk, sem greinist jákvætt en veit það ekki enn þá, smiti í kringum sig áður en niðurstöður eru fengnar.“

Smit í matvælafyrirtæki

„Þetta er ekki mjög stór vinnustaður, þannig að það er vonandi að sóttkvíin virki og að ekki verði fleiri smit,“ segir Kamilla, spurð um tvö smit kórónuveiru sem upp eru komin hjá starfsmönnum matvælafyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segist vita til þess að fyrirtækið hafi tekið sóttvarnaráðstafanir mjög alvarlega frá því faraldurinn hófst í vor.

Afar ólíklegt sé að dropasmit hafi borist úr starfsmönnum í þau matvæli sem fyrirtækið framleiðir.

„Það þarf að vera svo tiltölulega stuttur tími sem líður á milli, þegar um yfirborðssmit er að ræða. En þetta er vissulega smitleið og við þurfum að vera meðvituð um hana, ekki síst því við erum með ýmsar leiðir til að hindra að hún nái fram að ganga,“ segir Kamilla í samtali við mbl.is, að loknum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og almannavarna í Safnahúsinu.

„Við þurfum að vera dugleg að bæði sótthreinsa hendur áður en við snertum hluti og eins eftir að við snertum þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert