Hættustig setur Landspítalann í stellingar

Frá smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi í vor.
Frá smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi í vor.

Áætlun Landspítalans kvað á um að ef leggja þyrfti inn sjúkling yfir sumartímann vegna kórónuveirunnar þyrfti að færa spítalann af óvissustigi yfir á hættustig.

„Þetta er fyrst og fremst gert til að setja stofnunina í stellingar,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans. „Það er mikilvægt að allir séu í réttum stellingum og tilbúnir.“

Munu ekki fara á neyðarstig

Hún segir spítalann aldrei hafa farið á neyðarstig þegar baráttan við veiruna stóð sem hæst fyrr á árinu og býst hún ekki við því að það verði gert núna. „Þetta er það hæsta sem við förum án þess að allt fari gjörsamlega úr böndunum og við ráðum ekki við ástandið sem samfélag. Það gerðist ekki síðast og ég er vongóð um að það gerist ekki núna.“

Hvað starfsmenn spítalans varðar þá hefur fólk verið á ferðinni og starfað í svokallaðri sóttkví A, B og C. Anna Sigrún hefur ekki upplýsingar um hversu margir starfsmenn eru í sóttkví. Fyrr í vetur voru þeir mörg hundruð og hafði það vitaskuld mikil áhrif á starfsemina.

Kynna nýja útfærslu á morgun

Spítalinn er núna að vinna í því hvernig auknar aðgangstakmarkanir verða útfærðar á spítalanum með nýju reglunum sem stjórnvöld kynntu í morgun, til dæmis varðandi tveggja metra regluna og grímunotkun. Til stendur að kynna þá útfærslu á morgun.

Aðspurð bætir Anna Sigrún við að starfsmenn hafi verið kallaðir heim úr sumarfríum vegna stöðunnar sem er uppi núna.

„Við teljum okkur vera í stakk búin til að glíma við þetta, það þarf enginn að óttast annað. Við munum bregðast við þessu af sömu ábyrgðarfestu og síðast, það verður engin breyting á því,“ greinir hún frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert