Mörg tjaldsvæði svo gott sem lokuð

Þetta er svakalegt kjaftshögg, segir Drífa Björk Linnet, eigandi Hraunborgar Lava Village í Grímsnesi, um hertar aðgerðir stjórnvalda gegn kórónuveirunni í samtali við mbl.is.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti hertar aðgerðir gegn veirunni á blaðamannafundi í morgun, en þar kom m.a. fram að aðeins samkomumörk yrðu hert svo aðeins 100 manns megi koma saman á hverjum stað og tveggja metra reglan skal vera í gildi þar sem möguleiki er. Nýju reglurnar taka í gildi á hádegi á morgun, 31. júlí.

Á blaðamannafundi í dag biðlaði Víðir Reynisson til fólks að fresta útilegum og halda sig frekar heima um helgina. Engu að síður hafa tjaldsvæði þurft að grípa til aðgerða svo að samkomumörk verði virt.

„Það er erfitt að bregðast við þessu, en við tökum þetta alvarlega,“ segir Drífa, en tjaldsvæðið er svo gott sem lokað fyrir nýjum gestum um helgina. Hún segir að þeir sem séu þegar til staðar gangi fyrir, en að ekki verði tekið við fleiri gestum í bili.

„Þetta er rosalega fyrirvaralítið og við, eins og ábyggilega allir aðrir rekstraraðilar á Íslandi, erum búin að undirbúa þessa stærstu helgi ársins.“ Búið sé að kaupa mat og drykk fyrir hundruð þúsunda króna og margir séu þegar mættir á tjaldsvæði.

Einnig hefur sundlauginni á Hraunborgum verið lokað varanlega, en að sögn Drífu verður hún líklegast ekki opnuð aftur fyrr en næsta sumar.

Hún segir að fólk sé óþreyjufullt og jafnvel pirrað að það skuli ekki komast að á tjaldsvæðum. „Það eru greinilega allir í örvæntingu, síminn er búinn að loga síðan fréttirnar bárust. Allir eru að reyna að toga í einhverja spotta til að komast að.“

Wikipedia

Veruleg áhrif á reksturinn

Tjaldsvæðum á Akureyri hefur verið skipt í fimm hólf, þar sem mest 100 manns mega koma saman. Þá verður gestum sem koma eftir að tjaldsvæðin fyllast vísað í burtu.

Þetta segir Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri Hamra, rekstraraðila tjaldsvæðanna á Akureyri, í samtali við mbl. Hann segir það hafa verið óþægilegt að fá fréttir um hertar aðgerðir með svona stuttum fyrirvara. „Við erum búin að leggja í mikinn aukakostnað sem við hefðum ekki gert ef við hegðum vitað þetta fyrr,“ segir Tryggvi.

„Þetta hefur veruleg áhrif á reksturinn. Þetta hefur ýmis áhrif, en það þýðir ekkert að horfa á það.“

Stöðugur straumur af fólki hefur verið að tjaldsvæðum Akureyrar það sem af er viku, en Tryggvi telur að vel verði hægt að stjórna fjöldanum á tjaldsvæðum bæjarins.

Svo gott sem lokað

Á Húsafelli hefur verið ákveðið að loka tjaldsvæðinu. Þeir sem þegar voru á svæðinu fá að vera áfram, fleirum verður ekki hleypt inn á svæðið. Unnar Bergþórsson, umsjónarmaður á Húsafelli, segir að mikið verði lagt í skiptingu og hreinsun salernishúsa.

Svipað er uppi á teningnum hjá öðrum tjaldsvæðum sem mbl.is setti sig í samband við, en líklegt er að nýjum gestum verði víða vísað í burtu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert