Frekari styrkir koma til greina

„Við höfum dregið línuna þar sem væri lögboðið að menn …
„Við höfum dregið línuna þar sem væri lögboðið að menn þyrftu að hætta starfsemi en þetta er ekki alveg svart/hvítt, þar sem við erum með suma starfsemi sem má vera að hluta til með opið,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að hertar ráðstafanir vegna kórónuveirunnar kalli á að fyrri hjálparaðgerðir fyrir fyrirtæki verði metnar að nýju með það í huga að mögulega þurfi að taka þær upp aftur. Þetta fari meðal annars eftir tímaramma aðgerðanna, en þær tóku gildi í dag og eiga að gilda til 13. ágúst.

Bjarni telur ekki að hagkerfið sé komið á sama stað vegna hertra ráðstafana og var í miðjum faraldri. Síðan hefur það verið á uppleið, það rofar til í ferðaþjónustu og svo framvegis.

„Það væru mikil vonbrigði ef við værum á leiðinni aftur í verulegar takmarkanir. Ég lít ekki þannig á að við séum komin á þann stað. Ég lít þannig á að nú sé komin upp staða sem við vissum að gæti komið upp þar sem við þyrftum að einangra tilvikin og draga úr frekara smiti,“ segir hann við mbl.is.

„Ég held að við getum sagt að við erum heimsmeistarar í að gera nákvæmlega það sem við erum að gera núna. Með fyrri aðgerðum hefur okkur tekist að vekja athygli um allan heim. Ef við stöndum aftur saman eins og við höfum gert að því að fylgja fyrirmælum og takmarka útbreiðslu veirunnar hef ég ekki áhyggjur af því að þetta vindi mikið upp á sig. En maður getur ekki gefið sér neitt í þessu.“

Ekki svart hvítt

Veitingastöðum og skemmtistöðum hefur verið gert að gera hlé á starfsemi sinni ef þeir geta ekki virt tveggja metra regluna í starfseminni og það gildir raunar um alla þjónustustaði. Gagnrýnt hefur verið að staða fyrirtækja geti verið óljós í tengslum við styrki, þar sem þeim er í sjálfsvald sett hvort þau loki eða ekki. 

B5. Skemmtistaðir voru lokaðir í um tvo mánuði frá mars …
B5. Skemmtistaðir voru lokaðir í um tvo mánuði frá mars til maí og nú blasir við verulega skert starfsemi vegna nýrra ráðstafana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að fyrirtæki fái lokunarstyrk jafnvel þó að tilmæli kveði ekki skýrt á um að þau þurfi að loka segir Bjarni: „Ég hef alltaf gengið út frá því að ef það þyrfti að framlengja ráðstafanir sem leiða til þess að rekstur stöðvast þyrftum við að skoða það. Við boðuðum það reyndar þegar við lögfestum þær aðgerðir.“ 

„Við höfum dregið línuna þar sem væri lögboðið að menn þyrftu að hætta starfsemi en þetta er ekki alveg svart/hvítt, þar sem við erum með suma starfsemi sem má vera að hluta til með opið,“ segir Bjarni.

Hlutabótaleið út ágúst

Hlutabótaleiðin stendur fyrirtækjum enn til boða upp á 50% endurgreiðslu út ágúst. Bjarni segir erfitt að segja strax til um það hvort lokunarstyrkir verði aftur í boði vegna lokana. 

„Þeir voru hugsaðir sem stuðningur við þá sem eru að taka þátt í því samfélagslega verkefni sem er að hindra útbreiðslu veirunnar, og verða fyrir miklum skakkaföllum í rekstri vegna þess. Þar hefur okkur þótt að það séu sanngirnisrök fyrir því að standa með þeim sem taka þátt,“ segir Bjarni.

Um þau útgjöld sem auknar björgunaraðgerðir hafa í för með sér segir Bjarni að það sama gildi og fyrr, að um sé að ræða kostnað sem ríkið ráði við að taka á sig tímabundið. „Aðalatriðið er að lágmarka heildartjónið fyrir samfélagið og valkosturinn hér er meira tjón,“ segir Bjarni. Enginn stuðningur hefði sem sagt meira tjón í för með sér en kostnaðinum nemur við að veita hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert