Hvít tjöld risu þótt engin verði Þjóðhátíð

Hvít tjöld risu í Eyjum í gær.
Hvít tjöld risu í Eyjum í gær. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Hvít tjöld risu í Vestmannaeyjum í gær eins og venjan er fyrir verslunarmannahelgi þrátt fyrir að engin verði Þjóðhátíð.

Henni var frestað fyrir nokkru síðan en að sögn Jóhannesar Ólafssonar, yfirlögregluþjóns í Vestmannaeyjum, er víst að nokkuð af brottfluttum Eyjamönnum og fjölskyldum heimamanna muni koma í heimsókn til Eyja yfir helgina.

Hann telur þó ekki ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af hópamyndun. „Það verða fjölskyldur í görðum og vinir og vandamenn hittast en við eigum ekki von á fjöldasamkomum.“

Skipuleggjendur styrktartónleika sem til stóð að halda á laugardagskvöld drógu umsókn sína um tónleikahald til baka í gær og gerði Björgunarfélag Vestmannaeyja slíkt hið sama vegna blystendrunar í Herjólfsdal.

mbl.is