Lögreglu tekist að ræða við manninn vegna brunans

Húsið við Bræðraborgarstíg eftir brunann.
Húsið við Bræðraborgarstíg eftir brunann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglu hefur tekist að ræða við karlmann á sjötugsaldri, sem grunaður er um íkveikju sem olli brunanum á Bræðraborgarstíg 25. júní.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði frá miðjum mánuðinum kom fram að ekki hefði tekist að ræða við hann vegna andlegra veikinda hans að undanförnu. 

Maðurinn er nú í gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna, en varðhaldið er til 6. ágúst. Margeir segir að málið sé rannsakað sem grunur um íkveikju. Fréttablaðið greindi frá því að maðurinn sé grunaður um að hafa brotið 211. grein almennra hegningarlaga sem snýr að manndrápi af ásetningi, en Margeir ítrekar að rannsóknin gangi út á grun um íkveikju.

Margeir segir að rannsóknin sé vel á veg komin, en hann vill ekki gefa neitt nánar upp varðandi rannsóknina sjálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert