Neitað um sýnatöku en var með veiruna

„Svo þegar ekki er talið tilefni til að ég fari …
„Svo þegar ekki er talið tilefni til að ég fari í sýnatöku þá velti ég því fyrir mér hvort ég væri að verða vænissjúk eða dramatísk að loka mig algjörlega af. Ég vissi ekki alveg hvort ég væri að gera of mikið úr þessu,“ segir Alexandra Ýr. Ljósmynd/Aðsend

Tvisvar sinnum var ungri konu neitað um sýnatöku fyrir COVID-19 í marsmánuði en hún komst að því í dag, eftir mótefnamælingu, að hún hefði verið með sjúkdóminn. Konan, Alexandra Ýr van Erven, segist skilja að mikið álag hafi verið á heilbrigðiskerfinu en það sé þó verra að smitaðir séu ekki greindir þegar þeir hafi kallað eftir sýnatöku. 

Alexandra Ýr fann fyrir slappleika, sleni, miklum beinverkjum og særindum í hálsi. Hún segir að það sé léttir að fá loks að vita hver ástæðan fyrir veikindunum var. 

„Það var merkilega gott að fá þessa staðfestingu. Að vita að það var í alvöru eitthvað að. Ég var svolítið orkulaus út önnina og gekk illa að halda dampi í skólanum og að fá skýringu á því var mjög gott. Ég held að maður vilji líka alltaf vita hvað er í gangi með líkamann manns.“

Mikið álag á kerfinu

Eins og áður segir óskaði Alexandra Ýr eftir sýnatöku í tvígang. 

„En þetta var á þeim tíma í mars sem það var mikið álag á kerfinu og þetta datt inn í þann tíma sem það vantaði sýnatökupinna. Ég er ung og ekki með undirliggjandi sjúkdóma þannig að ég skil alveg að ég hafi ekki verið efst á forgangslistanum. En samt féll ég í gegnum síuna og var smituð. Það er þá kannski tilefni til þess að endurhugsa hvernig sían er gerð.“

Einangraði sig þrátt fyrir neitun

Alexöndru Ýr grunaði að hún væri með COVID og gætti hún þess því að einangra sig þrátt fyrir að hafa ekki fengið grun sinn staðfestan. Henni þykir þó verra að hafa verið í samskiptum við fólk þegar hún var mögulega orðin smituð en ekki veik og það fólk hafi þá ekki verið látið vita. 

„Svo þegar ekki er talið tilefni til að ég fari í sýnatöku þá velti ég því fyrir mér hvort ég væri að verða vænissjúk eða dramatísk að loka mig algjörlega af. Ég vissi ekki alveg hvort ég væri að gera of mikið úr þessu,“ segir Alexandra Ýr. 

Algengt er að fólk glími við eftirköst af COVID eftir að veikindunum er lokið. Alexandra Ýr hefur verið orkulítil og orðið fljótt móð undanfarið en hafði ekki sett það í samhengi við COVID-19 fyrr en nú. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert