Öskraði á viðskiptavini að hann væri sýktur

Maðurinn áreitti fólk í verslunarkjarnanum á Höfða.
Maðurinn áreitti fólk í verslunarkjarnanum á Höfða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan var kölluð að verslunarkjarnanum á Bíldshöfða í Reykjavík síðdegis í dag vegna manns sem stóð fyrir utan útibú Arion banka og öskraði á fólk að hann væri með kórónuveiruna.

Samkvæmt heimildum mbl.is reyndi maðurinn að ryðja sér leið inn í útibú bankans en var vísað frá. Eftir að maðurinn linnti ekki látum og hélt áfram að áreita viðskiptavini sneru öryggisverðir bankans og starfsmenn Krónunnar, sem er í sama húsi, hann niður og kölluðu til lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu glímir maðurinn við andleg veikindi og ekki talin sérstök ástæða til að ætla að hann sé sýktur. Hann muni þó undirgangast próf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert