Þessi fá að vera við innsetningu forseta

Þétt var setið við innsetningu Guðna Th. Jóhannessonar í ágúst …
Þétt var setið við innsetningu Guðna Th. Jóhannessonar í ágúst 2016. mbl.is/Freyja Gylfa

Vegna kórónuveirufaraldursins verður innsetningarathöfn forseta Íslands í þinghúsinu á morgun minni í sniðum en venjan er. Aðeins verður 29 boðið til athafnarinnar, að forsetahjónunum meðtöldum, og hefur stólum verið raðað með góðu bili í þingsalnum, að því er fram kemur í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Innsetningarathöfnin hefst klukkan 15.30 á morgun og verður útvarpað og sjónvarpað í Ríkisútvarpinu. Til að koma í veg fyrir fjöldasamkomu á Austurvelli verður mynd og hljóði þó ekki varpað út á Austurvöll eins og hefð er fyrir, og munu forsetahjónin ekki koma út á svalir þinghússins að athöfn lokinni til að heilsa mannfjöldanum, sem væntanlega verður ekki til staðar.

Þrír ráðherrar

Aðeins þremur ráðherrum verður boðið til athafnarinnar, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þá er formönnum annarra flokka á Alþingi, eða staðgenglum þeirra, boðið.

Fyrrverandi forsetum, Ólafi Ragnari Grímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur, er boðið til athafnarinnar, sem og Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú. Þá verður allra nánustu fjölskyldu forsetahjónanna boðið. Forseti Alþingis, Steingrímir J. Sigfússon, og forseti Hæstaréttar, Þorgeir Örlygsson, verða sömuleiðis viðstaddir en þeir eru ásamt forsætisráðherra handhafar forsetavalds.

Enginn fagnaður á Bessastöðum

Eins er Benedikt Bogasyni, varaforseta Hæstaréttar, og fyrsta varaforseta Alþingis, Guðjóni S. Brjánssyni, boðið svo og skrifstofustjórum Alþingis og Hæstaréttar, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins og forsetaritara. 

Biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, er einnig boðið og mun hún flytja blessunarorð við athöfnina en eins og greint hefur verið frá verður ekki messað í Dómkirkjunni fyrir athöfnina vegna kórónuveirufaraldursins. Þá verður enginn fagnaður á Bessastöðum um kvöldið eins og venja er.

Svalir Alþingishússins eru aðeins nýttar við innsetningu forseta. Þær verða …
Svalir Alþingishússins eru aðeins nýttar við innsetningu forseta. Þær verða ekki notaðar að þessu sinni og verða því ónýttar í fjögur ár til viðbótar. mbl.is/Júlíus
mbl.is