Að opna land

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra talaði mjög fyrir opnun landamæranna sem …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra talaði mjög fyrir opnun landamæranna sem fyrst, undir það tóku Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, segir í bók Björns Inga. mbl.is/Eggert

Á næstu dögum kemur út bók eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, um Ísland og COVID-19, það sem gengið hefur á að tjaldabaki hér á landi frá því kórónuveiran skaut upp kollinum í Kína undir áramótin síðustu. Morgunblaðið hefur fengið góðfúslegt leyfi til að birta stutt kaflabrot úr bókinni, en hér er fjallað um deilur um opnun landsins á nýjan leik 15. maí síðastliðinn.

Eftir samtöl við fjölmarga aðila undanfarna mánuði, varð bókarhöfundi smám saman ljóst, að mikil saga er enn ósögð um það sem gekk á að tjaldabaki – innan stjórnkerfisins, viðskiptalífsins og í heilbrigðisþjónustunni. Þar var um að ræða gamalkunna togstreitu um völd og ákvarðanir og sitt sýndist hverjum þótt allt væri slétt og fellt á yfirborðinu og þríeykið sameinaði þjóðina að baki þeim ákvörðunum sem teknar voru.

Þetta átti ekki síst við um opnun landsins. Við Íslendingar höfðum verið í hálfgerðu svikalogni í maí og fyrstu daga júnímánaðar eftir þann frábæra árangur sem náðist í sóttvörnum með smitrakningu, einangrun sýktra og sóttkví þeirra sem mögulega höfðu komist í tæri við veiruna. Landið var því sem næst lokað og nýsmit höfðu því ekki borist til landsins enda þótt veiran lifði greinilega góðu lífi utan landsteinanna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, lýsti því yfir um þetta leyti að COVID-19 hefði aldrei verið skæðari í heiminum. Sú þróun átti bara eftir að halda áfram til hins verra.

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson.

Icelandair reri lífróður þessa vordaga og óttast var um samgöngur til og frá landinu enda um engar tekjur að ræða þar sem lítið sem ekkert var flogið. Ríkisstjórnin hafði þó samið við flugfélagið um ákveðnar lágmarkssamgöngur, en nýting á því flugi var ekki mikil. Fólk var einfaldlega ekki að ferðast.

Góður árangur Íslands í baráttunni við veiruna hafði hins vegar spurst vel út á alþjóðavísu og í stjórnkerfinu urðu menn varir við aukinn áhuga ferðamanna á að koma til landsins, einkum hinna efnameiri. Forráðamenn Icelandair þrýstu mjög á um einhverjar tilslakanir, sama gerðu forystumenn í ferðaþjónustunni, enda veik von um ferðamannasumar eina ljósglætan í því svartamyrkri sem ríkti í viðskiptum við ferðamenn og með hækkandi sól fór þörfin eftir meira athafnafrelsi að gera vart við sig.

Á vettvangi ríkisstjórnarinnar var málið umdeilt. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra talaði mjög fyrir opnun landamæranna sem fyrst, undir það tóku Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Í þingliði Sjálfstæðisflokksins var vaxandi kurr yfir stöðu mála og fór Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar og fv. dómsmálaráðherra, þar fremst í flokki.

*

Rökræðan við ríkisstjórnarborðið um þessi mál í apríl og maí var mikil og harkaleg á köflum. Innan ríkisstjórnarinnar var fólk meðvitað um persónulega hagsmuni utanríkisráðherrans í málinu, en eiginkona hans Ágústa Johnson á 2,4% hlut í Bláa lóninu, einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, gegnum einkahlutafélagið Bogmanninn. Eins og nærri má geta, átti það fyrirtæki gífurlega mikið undir því að ferðamennska hæfist aftur í landinu án frekari tafa, eins og auðvitað öll önnur sambærileg fyrirtæki. Mikill hagnaður hafði verið af rekstri lónsins í Svartsengi um árabil og hluthafar uppskorið ríkulegar arðgreiðslur, þrátt fyrir mikla uppbyggingu á sama tíma. Einn þeirra var eiginkona utanríkisráðherra, en Guðlaugur Þór hafi átt helmingshlut í Bogmanninum ehf, þangað til árið 2008, en Ágústa hefur átt það ein síðan. Arðgreiðslurnar komu þó ekki í veg fyrir að Bláa lónið yrði eitt fyrsta fyrirtækið til að fara svokallaða hlutabótaleið stjórnvalda.

Kári Stefánsson fylgdist vel með þessari rökræðu enda orðinn sérfróður um veiruna í samfélaginu þegar hér var komið sögu og í miklu sambandi við nokkra ráðherra. Hann telur að utanríkisráðherra hafi þarna verið í óþægilegri stöðu. „Ég er ekki að segja að hann hafi beitt sér þess vegna, en það er óþægilegt að maður skuli yfirleitt leiða hugann að þeim möguleika. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman,“ segir hann.

Ágústa kom reyndar ekki aðeins óbeint að þeim álitaefnum sem ríkisstjórnin fjallaði um á fundum sínum. Hún kom einnig fram fyrir hönd samtaka líkamsræktarstöðva (sem framkvæmdastjóri Hreyfingar, dótturfélags Bláa lónsins) og mótmælti með erindi til sóttvarnalæknis þeirri ákvörðun hans að leyfa opnun sundstaða á ný en halda líkamsræktarstöðvum lokuðum. Erindi þessa efnis sendi hún ásamt öðrum aðila í tölvupósti til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar og þótti nokkrum þeirra það undarleg ráðstöfun þar sem einstakir ráðherrar höfðu ekki beitt þrýstingi á sóttvarnalækni í þeim álitaefnum sem uppi voru.

„Að eiginkona ráðherra sendi slíkt erindi á sóttvarnalækni með afriti á alla ráðherra ríkisstjórnarinnar bar vott um mikinn dómgreindarbrest. Þetta sýnir vel hversu mikil taugaveiklun var í gangi. Átti landbúnaðarráðherra sem dæmi að fara að ýta á sóttvarnalækni að opna World Class eða Hreyfingu?“ segir einn ráðherra um þessi mál við bókarhöfund.

Kaflabrotið í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem fylgdi blaðinu í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert