Forðist þrönga rétthugsun og ofurviðkvæmni

Guðni Th. Jóhannesson flytur ávarp eftir að hafa undirritað drengskaparheit …
Guðni Th. Jóhannesson flytur ávarp eftir að hafa undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Blessunarlega erum við ólík um margt, en víðsýni, mildi, fjölbreytni og frelsi eru gildi sem langflestir landsmenn meta. Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í ræðu við innsetningarathöfn sína í Alþingishúsinu nú fyrir skömmu.

Hann varaði fólk þó við því að festast í þröngri rétthugsun, ofurviðkvæmni fyrir öndverðum skoðunum og hneykslast á hinu og þessu í kringum sig. „Látum það ekki sannast um okkur sem karlinn sagði, eða var það kerlingin: „Mér líður best þegar mér finnst allt verst.““

Guðni sagði að börn á förnum vegi spyrðu hann gjarnan hvernig væri að vera forseti, og þá nýttu þau tækifærið til að spyrja forsetann hvernig hann gæti beitt sér í málefnum sem brynnu á þeim, svo sem gegn umhverfisvá, ofbeldi, misrétti og einelti. 

„Þá getur manni vafist tunga um tönn,“ sagði Guðni. Forsetanum sé enda aðeins ætlað hlutverk á sviði stjórnmála við sérstakar aðstæður, að ógleymdum rétti hans til að synja lögum staðfestingar vegna eigin samvisku eða með hliðsjón af skýrum vilja stórs hluta kjósenda.

Forsetahjónin koma til þinghússins.
Forsetahjónin koma til þinghússins. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Guðni sagði að þótt fyrst og fremst væri litið á hlutverk þjóðhöfðingja Íslands sem sameiningartákn væri þó rangur póll tekinn í hæðina ef forsetinn teldi stöðu sinnar vegna að vænlegast væri að segja ekkert sem gæti valdið deilum í samfélaginu. „Þögn í nafni hlutleysis getur reynst varhugaverð þeim voldugu í hag á kostnað þeirra sem minna mega sín,“ sagði Guðni.

Forseti þyrfti að geta tjáð hug sinn og gæti ekki verið stikkfrí. „Enginn er þó stærri en embættið sjálft. Sú eða sá, sem því gegnir, ætti ekki að leyfa sér þann munað að halda aðeins fram eigin skoðunum og óskum, eða skipa sér í fylkingu á velli átaka til þess eins að úlfúð aukist, engum til gagns.“

Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff koma til athafnarinnar.
Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff koma til athafnarinnar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Misráðið að leita blóraböggla í faraldrinum

Forsetinn kom víða við í ávarpi sínu og gerði meðal annars breytingar á stjórnarskrá að umtalsefni. „Fari svo sem horfir fjalla þingmenn senn um breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið forseta Íslands. Væntanlega telja sumir óþarft að hrófla við þeim og aðrir réttast að fylgja því frumvarpi sem stjórnlagaráð samdi á sínum tíma. Fróðlegt verður að fylgjast með umræðum sem í hönd fara og sjálfsagt að leggja sitt til mála.“

Vigdís Finnbogadótir, fyrrverandi forseti.
Vigdís Finnbogadótir, fyrrverandi forseti. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Þá hvatti Guðni landsmenn til að sýna áfram seiglu og samstöðu í baráttunni við kórónuveiruna. „Leitt væri ef við létum beiskju eða reiði ná tökum á okkur núna. Misráðið er að leita blóraböggla í miðjum klíðum,“ sagði forsetinn. Hvatti hann fólk til að fylgja áfram leiðsögn stjórnvalda og almannavarna. „Vel meint gagnrýni er góðra gjalda verð en sundrung á þessari stundu gagnast engum.“

Hann sagði að síðustu að síðustu mánuði hefðu landsmenn verið rækilega minntir á þá frumskyldu samfélags og ríkisvalds að vernda líf og heilsu fólks. „Ég á mér þá ósk að við sinnum enn betur lýðheilsu og forvörnum í heilbrigðismálum, að við áttum okkur enn betur á því að í ys og þys nútímans er brýnt að huga að andlegri líðan, sporna við streitu og stressi, kulnun og kvíða,“ sagði forsetinn og vísaði því næst í ljóð Laufeyjar Jakobsdóttur. „Gull og metorð gagnast ekki, gangir þú með sálarhlekki.“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti blessunarorð í lok athafnar.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti blessunarorð í lok athafnar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is