Ný landgöngubrú Herjólfs hrundi

Sá hluti brúarinnar sem tengist húsinu hrundi til jarðar. Undir …
Sá hluti brúarinnar sem tengist húsinu hrundi til jarðar. Undir keyra bílar. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Ný landgöngubrú Herjólfs hrundi á fimmta tímanum í dag. Brúin er notuð fyrir gangandi umferð til og frá skipinu en undir brúna keyra bílar um borð. Ekki var búið að opna fyrir umferð um brúna en mikil mildi þykir að enginn bíll hafi verið undir brúnni þegar hún hrundi því stuttu áður hafði húsbíll keyrt þar undir.

Í samtali við mbl.is segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, að brúin hafi komið til landsins með nýjum Herjólfi árið 2018 en ekki verið sett upp fyrr en í síðustu viku. Vegna þess hve sjávarhæð er mikil í dag hafi stýrimaður ætlað að lyfta henni upp í hæstu stöðu en hún hafi þá runnið af sleðanum við húsvegginn og sá endi fallið til jarðar.

Hefði getað farið illa

„Það er lán í óláni að fáir farþegar eru á ferðinni. Þetta hefði annars getað farið illa. Það er engum blöðum um það að fletta,“ segir Guðbjartur. 

Ekkert tjón er á brúnni og henni hefur verið lyft aftur upp. Guðbjartur segir þó að brúin verði ekki tekin í notkun á ný fyrr en gefist hafi ráðrúm til að fara yfir öryggisatriði og tryggja að þetta geti ekki komið fyrir aftur. Þangað til fari gangandi vegfarendur inn um innkeyrsluna fyrir bíla. 

mbl.is