Sighvatur Bjarnason
Skipverji um borð skemmtiskútunni Hetairos greindist með kórónuveirusmit í vikunni eftir að skútan lagðist við bryggju í þorpinu Nanortalik á suðurodda Grænlands.
Skipið lá í tíu daga á Pollinum við Akureyri og fór þaðan til Ísafjarðar áður en stefnan var sett á Grænland. Samkvæmt upplýsingum frá hafnarstjóra Akureyrar lagðist skútan ekki að bryggju og ekki er vitað til að skipverjar hafi farið í land. Á Ísafirði bættust við tveir skipverjar, sem komu til Íslands með flugi, en enginn um borð fór í land, samkvæmt upplýsingum frá hafnarstjóra þar.
Skútan er í eigu þýsks auðmanns og skráð á Caymaneyjum. Grænlensk stjórnvöld vildu fyrst ekki upplýsa hvaðan skútan var að koma en eftir að grænlenskur þingmaður tók málið upp á þinginu var skýrt frá því að skútan kom til landsins frá Bretlandi með viðkomu á Íslandi, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Fréttamiðillinn Sermitisiaq segir að skortur á upplýsingagjöf til bæjarbúa og hugsanleg brot skipverja á sóttvarnareglum hafi vakið áleitnar spurningar meðal ráðamanna í Grænlandi.