Tíu ára og strax orðinn betri en pabbi

Máni með bikarinn sem hann hlaut fyrir sigurinn á meistaramótinu.
Máni með bikarinn sem hann hlaut fyrir sigurinn á meistaramótinu. Ljósmynd/Aðsend

Máni Freyr Vigfússon heitir tíu ára kylfingur hjá golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði. Strákurinn er vafalítið einn sá efnilegasti á landinu enda hefur hann þrátt fyrir ungan aldur þegar náð árangri sem fjölmargir áhugakylfingar geta einungis látið sig dreyma um.

Á meistaramótinu sem var haldið á dögunum spilaði hann Hvaleyrarvöllinn, sem er par 71, fyrst á 88 höggum, daginn eftir á 83 og svo 81 höggi og hélt faðir hans Vigfús Adolfsson að þarna væri strákurinn að toppa.

Máni Freyr var á öðru máli og spilaði völlinn einhverjum dögum síðar á 76 höggum. Daginn eftir bætti hann um betur og fór hann á 75 höggum, aðeins fjórum höggum yfir pari vallarins.

„Þetta er hrikalega gott miðað við hans aldur. Ég hélt ég hefði fleiri ár þar sem ég væri betri en hann en ég á engan séns lengur,“ segir Vigfús, sem segist aldrei hafa náð öðru eins skori þrátt fyrir að hafa stundað golfið í um fimmtán ár. Best hefur hann náð 82 eða 83 höggum.

Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði fjögurra ára í golfinu

Máni Freyr, sem er með 17 í forgjöf, byrjaði í golfinu er hann var aðeins fjögurra ára þegar hann fékk undanþágu til að fara í golfskóla sem átti að vera fyrir fimm ára krakka. Þjálfurunum þar leist svo glimrandi vel á hann að þeir buðu honum strax á æfingar.

„Þetta er fínasta barnapía á sumrin. Ég skutla honum bara út á völl á morgnana og sæki hann svo á kvöldin,“ segir Vigfús um golfiðkun sonarins. Þar hjálpar einnig til að amma og afi stráksins, sem einnig eru í golfinu, eiga heima nánast við hliðina á fyrsta teig og er heimili þeirra því hin besta bækistöð.

Máni Freyr var stuttur í loftinu þegar hann byrjaði í …
Máni Freyr var stuttur í loftinu þegar hann byrjaði í golfinu. Ljósmynd/Aðsend

Hættur að gefa syninum ráð

Spurður hvort Máni Freyr sé hinn nýi Tiger Woods segist pabbinn vona það en tekur fram að hann skipti sér ekkert af honum þegar hann er að spila. „Ég passa að vera ekki Tiger-pabbinn. Hann er töluvert betri en ég í þessu. Maður sér suma krakka sem eru efnilegir, sem er fjarstýrt af foreldrunum,“ bendir Vigfús á. Hann er til að mynda steinhættur að ráðleggja syninum um kylfuval. Síðast reyndi hann það á meistaramótinu en í stað þess að hlusta á karl föður sinn ákvað Máni Freyr að treysta frekar á sjálfan sig og dró fram kylfu sem reyndist sú eina rétta í stöðunni.  

Strákurinn endaði á að vinna sinn flokk, fyrir 12 ára og yngri, með rúmlega 50 högga mun en í fyrra lenti hann í öðru sæti. Vert er í þessu samhengi að geta þjálfara Mána Freys sem eru þeir Björgvin Sigurbergsson og Karl Ómar Karlsson hjá Keili, auk þess sem Björn Kristinn Björnsson hefur verið með hann í einkatímum.

Máni Freyr Vigfússon á síðasta ári með verðlaunapeninga um hálsinn.
Máni Freyr Vigfússon á síðasta ári með verðlaunapeninga um hálsinn. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar sér í atvinnumennsku

Máni Freyr segir í samtali við blaðamann að golfið sé það skemmtilegasta sem hann geri enda sé hann á vellinum á hverjum degi. Hann segir það mjög skrítið og skemmtilegt að hafa spilað á 76 og 75 höggum og að hann sé mjög ánægður með sjálfan sig. Segist hann jafnframt hafa mjög mikla trú á sér.

Spurður í hverju hann sé bestur í golfinu nefnir hann púttin en drævin þarf hann aftur á móti helst að laga.

Hver eru markmið þín í golfinu? „Ég ætla að komast í atvinnumennsku og komast til útlanda fljótt,“ segir Máni Freyr ákveðinn en uppáhaldskylfingurinn hans er Norður-Írinn Rory Mcllroy sem situr í öðru sæti heimslistans.

Máni Freyr með kylfuna á lofti fyrir nokkrum árum.
Máni Freyr með kylfuna á lofti fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/Aðsend
Máni ásamt föður sínum Vigfúsi Adolfssyni og móður sinni Karen …
Máni ásamt föður sínum Vigfúsi Adolfssyni og móður sinni Karen Lilju Hafsteinsdóttur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert