Úr ökklabandi og íhugar framboð til Alþingis

Guðmundur Ingi Þóroddsson.
Guðmundur Ingi Þóroddsson. mbl.is/​Hari

Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem losnar úr ökklabandi í dag eftir að hafa eytt stórum hluta síðustu tuttugu ára í fangelsi, segir koma til greina að bjóða sig fram til Alþingis.

Fréttablaðið greinir frá þessu. 

Guðmundur Ingi var stórtækur í fíkniefnasmygli en hefur undanfarið verið þekktastur sem formaður Afstöðu, félags fanga.

Hann vonast eftir breytingum í fangelsismálum hérlendis og að tekin verði upp „raunveruleg endurhæfingarstefna“ í von um að betri mönnum verði skilað út í samfélagið aftur og kostnaður, m.a. hjá lögreglu, dómstólum og heilbrigðiskerfinu, lækki. Ef ráðherrar svara ekki ákalli um úrbætur hyggur hann á framboð. 

„Ég tel mig vera góðan valkost fyrir stjórnmálaflokk sem vill vinna með mér og mun að sjálfsögðu starfa með þeim flokki þar sem ég tel að ég muni hafa mest áhrif á velferð og fangelsismál. Ég þarf náttúrlega bara að meta það hvaða flokkur yrði helst fyrir valinu og hugsa þetta út frá velferðar- og fangelsismálum,“ segir Guðmundur Ingi við Fréttablaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina