Útgefnum vegabréfum fækkar um 73%

mb.is/Hjörtur

Í júní 2020 voru 879 íslensk vegabréf gefin út. Til samanburðar var 3.231 vegabréf gefið út í júní 2019. Fækkaði því útgefnum vegabréfum um 73% á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu Þjóðskrár Íslands sem annast útgáfu vegabréfa auk nokkurra annarra skilríkja. 

Útgefnum vegabréfum hefur þó fjölgað talsvert frá því í aprílmánuði þegar þau voru sögulega fá. Þá voru einungis 129 vegabréf gefin út en voru 2.212 í fyrra. Birtar tölur Þjóðskrár Íslands um útgefin vegabréf ná aftur til ársins 2011 en í þeim tölum er hvergi að finna svo lága tölu útgefinna vegabréfa.

Í maímánuði voru útgefin vegabréf 363 talsins, miðað við 3.247 í fyrra. 

Engar skýringar eru gefnar á þessari miklu fækkun í tilkynningunni en ætla má að kórónuveiran eigi stóran þátt í þessari takmörkuðu útgáfu vegabréfa enda minna um að fólk ferðist utan í miðjum heimsfaraldri. 

Útgáfa vegabréfa var í miklum blóma í júnímánuði árið 2017 en þá voru útgefin vegabréf 11.613 og hafa þau aldrei verið jafnmörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert