Fríið er búið

Frá upplýsingafundi almannavarna í dag.
Frá upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Fríið er búið. Nú tökum við til aukinna varna,“ sagði Víðir Reynisson er hann sló botninn í upplýsingafund almannavarna í dag. „Ástandið hefur versnað. Við verðum að gera okkur grein fyrir því. Þess vegna verðum við að standa saman, vinna saman og leysa þetta saman,“ sagði Víðir enn fremur en ásamt honum voru til svars þau Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir.

Hljóðið í þríeykinu var örlítið þyngra í dag en í gær og líkt og í gær brýndi þríeykið fyrir landsmönnum mikilvægi hinna einstaklingsbundnu smitvarna. Í máli sínu fór Alma yfir helstu smitleiðir í ljósi margra ábendinga til almannavarna um að fólk sé ekki að virða tveggja metra regluna. Nefndi hún sérstaklega dropasmit.

Alma D. Möller á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Alma D. Möller á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Hún berst frá öndunarvegi þess sem er smitaður í litlum dropum sem geta borist í næsta mann ef hann er nálægt. Þess vegna viljum við halda þessum tveggja metra fjarlægðarmörkum. Hún getur líka borist á einhvern flöt sem næsti maður snertir og ef hann ber svo höndina ósótthreinsaða að nefi, munni eða augum, þá getur veiran komist inn í líkamann. Það er talið að veiran geti verið virk á sléttum plast- og stálflötum í nokkra daga, oftast talað um 2-3 daga,“ sagði Alma og talaði einnig um góðan handþvott, að bíða með að takast í hendur og að faðma aðeins sína nánustu.

Hefur náð að breiðast meira út

Þórólfur var spurður út í muninn á stöðunni í dag í samanburði við mánaðamótin febrúar og mars hvað varðar þróun smita.

„Það sem er kannski ólíkt er það að í mars vorum með með þessa holskeflu sem kom inn á sama tíma frá nokkuð þekktum stað, þ.e.a.s. Ölpunum, og reyndar eftir á að hyggja frá öðrum stöðum en það var minnihlutinn. Þetta var aðgreindur hópur, það var hægt að beita sóttkví miklu fyrr og þessar sóttvarnaaðgerðir þá virkuðu mjög hratt og vel,“ sagði Þórólfur og hélt áfram.

Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í dag.

„Núna erum við með þennan stofn af veirunni sem er að breiðast út og það sem er kannski öðruvísi við það er að við erum kannski ekki með þetta aðgreint og tilgreinda einstaklinga sem eru að koma með veiruna hingað inn sem við getum lokað af. Nú hefur hún kannski verið í gangi í einhvern tíma en við vitum ekki nákvæmlega hversu lengi og við vitum að sumir eru með lítil einkenni eða engin á meðan aðrir fá einhver einkenni. Hún hefur náð að breiðast meira út í sjálfu sér og það er kannski það sem er erfiðara viðfangs og gæti hugsanlega tekið lengri tíma að fást við,“ sagði Þórólfur.

Leynist meira

Það sem er þó ánægjulegt við þetta er að við erum með þessar tvær veirutegundir fyrst og fremst í gangi. Raðgreiningin sýnir það. Það væri miklu meira áhyggjuefni ef við værum með miklu fleiri tegundir af veirunni í gangi hér og færum allt í einu að sjá það. Það væri merki um það að það væri að leka hérna inn meira í gegnum landamærin. Við vorum með þessa mynd skýrari í mars en núna erum við að fást við veiruna þar sem hún leynist meira hér og þar heldur en þá,“ sagði Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina