Leitin ekki enn borið árangur

Konráðs Hrafnkelssonar hefur verið saknað frá því á fimmtudag.
Konráðs Hrafnkelssonar hefur verið saknað frá því á fimmtudag. Ljósmynd/Lögreglan

Engar ábendingar hafa enn borist ættingjum um ferðir Kon­ráðs Hrafn­kels­sonar, sem saknað hefur verið frá því á fimmtudag er hann yfirgaf heimili sitt í Brussel. 

Hlín Ástþórsdóttir, móðir Konráðs, segir að aðstandendur unnustu hans séu komnir út til borgarinnar.

Erfiðara að þekkja fólk

Um tuttugu vinir og aðstandendur leituðu Konráðs í Brussel í dag án árangurs. Hlín segir að skilyrði til leitar séu erfið vegna kórónuveirufaraldursins. Öllum sé til að mynda skylt að vera með grímu og því erfiðara að þekkja fólk á myndum eða förnum vegi. 

„Í raun er ekki verið að ganga um og leita, en við erum búin að setja auglýsingu á Instagram og þetta er komið í ferli hjá lögreglunni í Belgíu.“ 

Lögregla þar í landi hefur ekki hafið formlega leit og nafn Konráðs er ekki enn komið á lista yfir þá sem lögreglan lýsir eftir, en búist er við að leit hefjist fljótlega.  

Þeim sem kunna að hafa upplýsingar um ferðir Konráðs er bent á að hafa samband við aðstandendur gegnum tölvupóstfangið info.konni92@gmail.com eða með því að hringja í lögregluna á Norðurlandi eystra í síma 444-2800.

mbl.is