Lokuðu brottfararhliðum

Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Keflavíkurflugvöllur er ásamt öðrum alþjóðaflugvöllum undanskilinn þeim samkomutakmörkunum sem hafa verið í gildi frá því í upphafi mars.

Þá segjast rekstraraðilar flugvalla hafa búnað og þekkingu til þess að viðhalda mjög háu hreinlætis- og sóttvarnastigi í daglegri starfsemi.

Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn mbl.is, en tilefnið er frétt sem mbl.is flutti í dag af aðkomunni sem blasti við flugfarþegum í brottfararsal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í morgun.

Með grímur þar sem raðir myndast

„Alþjóðaflugvellir eru staðir þar sem venjulega fara tugir þúsunda farþega í gegn á degi hverjum. Rekstraraðilar flugvalla hafa búnað og þekkingu til þess að viðhalda mjög háu hreinlætis- og sóttvarnastigi í daglegri starfsemi. Þess vegna hafa alþjóðaflugvellir verið undanskildir samkomutakmörkunum sem hafa verið í gildi frá upphafi þeirra í mars enda miklar mótvægisaðgerðir útfærðar þar í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld,“ segir í skriflegu svari Isavia nú síðdegis.

Margmenni á Keflavíkurflugvelli kl. 7.25 í morgun.
Margmenni á Keflavíkurflugvelli kl. 7.25 í morgun.

Fram kemur einnig að flugrekendur reyni eftir fremsta megni að stýra flæði á þannig veg að farþegar þurfi ekki að vera í margmenni.

„Ef til þess kemur, til dæmis við staði þar sem raðir myndast eru grímunotkun farþega og starfsmanna og tíð sótthreinsun á sameiginlegum flötum þær mótvægisaðgerðir sem farið er í," segir í svari Isavia.

Landgangurinn ekki í notkun

Keflavíkurflugvöllur starfar langt undir afkastagetu nú á dögum vegna kórónuveirunnar en þrátt fyrir það kröfðust sóttvarnaaðgerðir, kröfur um skimun farþega og spurningar til þeirra farþega sem koma frá öruggum svæðum, þess að loka þurfti mörgum brottfararhliðum. Þar á meðal hinum svokallaða landgangi.

„Isavia hefur þurft að aðlaga húsnæðið að nýjum kröfur um skimun farþega frá áhættusvæðum og spurningum til farþega sem koma frá öruggum svæðum. Til þess að unnt sé að koma upp aðstöðu fyrir þessa vinnu, var nauðsynlegt að loka þeim brottfararhliðum þar sem ekki er unnt að uppfylla þessi skilyrði. Það eru því færri brottfararhlið í notkun heldur en þegar ástandið er eðlilegt. Til dæmis eru þau hlið sem eru á landganginum svokallaða ekki í notkun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert