Nafnarugl með rentu

Til vinstri, Guðný Guðmundsdóttir, og til hægri, Guðný Guðmundsdóttir.
Til vinstri, Guðný Guðmundsdóttir, og til hægri, Guðný Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Borghildur Indriðadóttir

„Hvað binst við nafn?“ spurði Júlía þegar hún rakti raunir sínar og Rómeó hér um árið. Svarið í þeirra tilfelli voru einmitt raunir, eintómt bölvað vesen, og margur kannast við það síðan. Þar á meðal er Guðný Guðmundsdóttir, en hjá henni eru vandræðin reyndar svo þrálát að þau hafa löngu snúist upp í andhverfu sína. Þau eru orðin brosleg, mun frekar en hvimleið.

En hvaða Guðný Guðmundsdóttir? Þetta er algengt nafn. Sextíu og eina Guðnýju Guðmundsdóttur er að finna í þjóðskrá, með millinöfnum, þannig að þetta gæti verið hver sem er. Ekki er það augljóst af myndinni hér að ofan, enda heita þær báðar Guðný Guðmundsdóttir á henni. 

Það er Guðný (Þóra) Guðmundsdóttir listrænn stjórnandi vinstra megin sem hér er til frásagnar, enda þótt nöfnur hennar séu margar síst ósnortnar af vandræðunum. Guðnýju hefur nefnilega árum og áratugum saman verið viðstöðulaust ruglað saman við nöfnur sínar úr ýmsum áttum og stígur nú loks fram, einkum í tilefni þess að nýverið leiddi hún í fyrsta sinn formlega saman hesta sína við eina þeirra, Guðnýju Guðmundsdóttur myndlistarkonu til hægri.

Um leið og þær sendu út boðsbréf um að Guðný myndlistarkona væri að fara að halda sýningu í nýja galleríi Guðnýjar listræns stjórnanda varð gamla ruglingsins vart. „Henni var strax óskað til hamingju með að vera að opna gallerí í sínu eigin nafni og fólk sem þekkti mig spurði mig hvort ég væri orðinn egóbrjálæðingur að vera að halda sýningu á eigin list þegar ég er ekki myndlistarmaður,“ segir Guðný listrænn stjórnandi við mbl.is.

Þessi samskipti eru lýsandi fyrir vandann, sem enn er fyrir hendi og teygir anga sína víðar, einnig aftur til fortíðar. Nöfnurnar eru 61 en hér koma helst fjórar við sögu að meðtöldum þessum tveimur Guðnýjum: Guðný Guðmundsdóttir eðlisfræðingur og Guðný Guðmundsdóttir fv. konsertmeistari og fiðluleikari. Tengslin eru svo margháttuð og hliðstæðurnar í lífi þeirra svo margar að misskilningnum er boðið heim.

Það er réttast að bregða upp skipuriti. 

Guðný Guðmundsdóttir (1) segir að þegar hún hafi fengið þessi viðbrögð við sýningunni hafi rifjast upp fyrir henni öll þau óteljandi skipti sem henni hefur verið ruglað saman við nöfnur sínar úr ólíkum áttum.

„Þetta er nefnilega algert rugl,“ segir Guðný.

Byrjaði allt með fiðlu

Þetta hófst allt, segir Guðný (1), þegar hún var í Listaháskólanum á Íslandi að læra á fiðlu. Sem fiðluleikari sem hét Guðný Guðmundsdóttir var henni reglulega ruglað saman við Guðnýju Guðmundsdóttur (4), landsfrægan fiðluleikara og fyrrverandi konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Símtöl, skeyti og tölvupóstar, sem Guðný (1) áframsendi samviskusamlega, rétt eins og hún svaraði gamansömum spurningum frá fólki um hvort þær væru ekki fiðlumeistarar eins og hin eina sanna Guðný Guðmundsdóttir.

Sömu spurningar fékk vinkona Guðnýjar og alnafna, Guðný Guðmundsdóttir (3). Þær þekktust þar sem þær lærðu saman á fiðlu í tónmenntaskóla sem börn og er vel til vina, ekki síst nafnanna vegna. Guðný (3), sem í dag er eðlisfræðingur, kom síðan aftur við sögu í lífi Guðnýjar (1) þegar hún flutti til Berlínar til að sækja sér framhaldsgráðu í eðlisfræði.

Greinilega of mikið fyrir þýsku skriffinnskuna

Á þeim tímapunkti voru þrjár Guðnýjar Guðmundsdætur búsettar í Berlín, 1, 2 og 3. „Það var greinilega of mikið fyrir þýsku skriffinnskuna,“ segir Guðný. „Þetta fór eiginlega fyrst að verða skuggalegt þegar ég fór að sakna námslánanna minna. Ég vissi að mamma var búin að senda mér þau og það bólaði ekkert á þeim. Það endaði með að Guðný hafði samband við mig og spurði: Heitir mamma þín ekki Halldóra?“ segir Guðný.

Eftir dvöl Guðnýjar eðlisfræðings í Berlín fær Guðný (1) enn þann dag í dag árbækur eðlisfræðingafélagsins sendar heim og á móti stóð Guðný eðlisfræðingur lengi í ströngu vegna vanskila á listasögubókum sem hún kannast ekki við að hafa tekið að láni. 

Skráð móðir barna hennar og eiginkona mannsins hennar

Þegar Guðný eðlisfræðingur flutti heim til Íslands sátu eftir í Berlín Guðný 1 og 2. Þær segjast í dag halda úti nokkurs konar póstþjónustu fyrir hvor aðra og kynntust upphaflega í gegnum þau samskipti, til dæmis þegar Guðný (1) fékk póst frá lífeyris- og sjúkratryggingum Guðnýjar (2) í heilt ár. Nú eru þær vinkonur og samstarfskonur í listinni.

Þeirra ævintýri náði hámarki þegar Guðný (1) var í bankanum í Berlín á dögunum að stofna bankabækur fyrir börnin sín. „Gjaldkerinn þylur eitthvað upp nafnið mitt og fæðingarárið mitt og ég veiti því ekki of mikla athygli en síðan segir hann fædd í Kaupmannahöfn. Fædd í Kaupmannahöfn? Þá kemur í ljós að hin Guðnýin [2] er skráð sem móðir barnanna minna og eiginkona mannsins míns í bankakerfinu. Það tók auðvitað marga mánuði að leiðrétta þetta í þýska kerfinu,“ segir Guðný.

Það mætti síðan raunar tala um annan hápunkt þegar Guðný (2) var mætt á fund á Zoom með sendiherra Íslands í Berlín. Sendiherrann gerði sér fljótt grein fyrir að mistök hefðu orðið við fundarboðun og Guðnýju (1) var umsvifalaust gert viðvart. Málið leystist farsællega, enda voru að störfum fagmenn í nafnaruglingi.

Listasýning Guðnýja

Öllum Guðnýjunum er vel til vina í dag þó að 3 og 4 hafi verið fjarri góðu gamni þegar listasýningin opnaði á föstudag. Þær hafa þó ágústmánuð til að kíkja á sýninguna, sem er í gömlu neðanjarðarbyrgi í húsi byggðu af nasistum fyrir stríð við Volksbühne í Berlín.

Sýning Guðnýjar (2) heitir Cold Man’s Trophies | Pure Maid’s Garlands og unnið er með teikningar og „kollage“, þar sem dauði Ófelíu svífur yfir vötnum. Þetta er fyrsta sýning Gallerís Guðmundsdóttur sem annars sýnir aðallega verk íslenskra og alþjóðlegra listakvenna. Næsta sýning opnar á listaviku í Berlín í september með sýningu á verkum Katrínar Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur.

Guðný Guðmundsdóttir opnaði sýningu á föstudaginn í galleríi Guðnýjar Guðmundsdóttur.
Guðný Guðmundsdóttir opnaði sýningu á föstudaginn í galleríi Guðnýjar Guðmundsdóttur. Ljósmynd/Antje Taiga Jandrig

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert