Reyndi vopnað rán í þrígang

Maður á þrítugsaldri var handtekinn í vesturborginni í nótt eftir að hann hafði gert þrjár ránstilraunir vopnaður hnífi.  Maðurinn veitti handtökunni ekki mótspyrnu að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hlýddi skipunum lögreglu.

Engum varð líkamlegt mein af brotahrinu mannsins né handtöku lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangageymslum í þágu rannsóknar málsins.

Fyrr í nótt hafði kona greint frá því á Facebook-síðu íbúa í Vesturbænum að hafa orðið fyrir því þar sem hún og unnusti hennar voru stopp á rauðu ljósi á Hringbrautinni að maður í annarlegu ástandi æddi að bíl þeirra. Hann hafi, með hníf á lofti, rifið upp hurð bifreiðarinnar, beint hnífi að hálsi manns hennar og skipaði honum að koma út úr bílnum.

Konan segir að maðurinn hafi verið mjög ógnandi en þeim hafi tekist að ýta við árásarmanninum, loka og læsa bílhurðinni og keyra af stað. Þau hafi haft samband við lögreglu sem kom strax á vettvang sem og sérsveit lögreglunnar. 

mbl.is