8 ný innanlandssmit

AFP

Átta ný smit voru greind innanlands hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Tveir bíða niðurstöðu mótefnamælingar eftir að hafa greinst með smit við landamærin. 80 eru því í einangrun. Alls eru 670 í sóttkví. Einn liggur á Landspítalanum með kórónuveiruna en hann er ekki á gjörgæslu. 

Alls voru tekin 2.035 sýni á landamærunum í gær, 914 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 291 hjá sýkla- og veirufræðideild LSH. 

Nýgengi innanlandssmita heldur áfram að hækka og er nú 17,7 innanlands. Aftur á móti er nýgengi landamærasmita enn ekki nema 2,2. 

Af þeim sem eru með virkt smit og í einangrun eru 57 á höfuðborgarsvæðinu og 9 á Vesturlandi. 4 eru á Suðurnesjum og 4 eru óstaðsettir - það er þeir eru ekki með íslenskt lögheimili. Á Norðurlandi vestra og eystra er 1 í einangrun í hvoru umdæmi og það sama á við um Suðurland og Vestfirði. Enn er enginn smitaður á Austurlandi en tveir Íslendingar með lögheimili í útlöndum eru smitaðir og í einangrun hér á landi. 

Al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra og embætti land­lækn­is boða til upp­lýs­inga­fund­ar fyr­ir fjöl­miðla klukk­an 14:00 í dag.

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir og Alma D. Möller land­lækn­ir fara yfir stöðu mála, varðandi fram­gang COVID-19 far­ald­urs­ins hér á landi, ásamt Víði Reyn­is­syni, yf­ir­lög­regluþjóni hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra.

mbl.is