Lendingartímar erlendis þrengja úrræðin

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Arnþór Birkisson

Lendingartímar Icelandair á erlendum flugvöllum gera flugfélaginu erfitt um vik að dreifa brottfarartímum þess á Keflavíkurflugvelli að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, í svari til mbl.is.

Tilefnið er fréttaflutningur í gær af ástandinu sem skapaðist í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar þar sem stór hópur fólks myndaðist í brottfararsal flugvallarins þar sem ómögulegt virtist vera að virða tveggja metra regluna en einungis liðu tvær mínútur á milli brottfara þriggja flugferða félagsins í gærmorgun.

„Leiðarkerfið okkar er byggt upp á ákveðnum lendingartímum á erlendum flugvöllum, sem gerir okkur erfitt um vik að breyta brottfarartímum í Keflavík. Við verðum því að vinna eins vel og mögulegt er úr þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Bogi.

Margmenni á Keflavíkurflugvelli kl. 7:25 í gærmorgun.
Margmenni á Keflavíkurflugvelli kl. 7:25 í gærmorgun.

Óhjákvæmilegt að fólk safnist saman

Keflavíkurflugvöllur er ásamt öðrum alþjóðaflugvöllum undanskilinn þeim samkomutakmörkunum sem hafa verið í gildi frá því í upphafi mars. En þrátt fyrir að starfa langt undir afkastagetu hafa sóttvarnaaðgerðir; kröfur um skimun farþega frá áhættusvæðum og spurningar til þeirra sem koma frá öruggum svæðum, krafist þess að loka hefur þurft mörgum brottfararhliðum. Þar á meðal hinum svokallaða landgangi. Isavia hefur því þurft að aðlaga húsnæðið að þessum nýju kröfum.

„Við vinnum náið með ISAVIA og sóttvarnayfirvöldum þar sem markmiðið er að gera allt sem við getum til að tryggja heilsu og öryggi farþega og starfsfólks. Keflavíkurflugvöllur vinnur langt undir álagsmörkum en óhjákvæmilega safnast fólk saman á komu- og brottfarartímum. Þess vegna hefur almenn grímuskylda meðal annars verið innleidd á flugvellinum og í flugvélum þar sem tveggja metra reglunni verður ekki alltaf komið við,“ segir Bogi.

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Eggert

„Hins vegar erum við stöðugt að endurmeta verklag og viðbrögð miðað við nýjustu upplýsingar á hverjum tíma og vinnum náið með öllum aðilum svo við getum tryggt flugsamgöngur til og frá landinu með eins öruggum hætti og mögulegt er,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert