Ökumenn slaki á bensínfætinum

Bifreið lögreglunnar á Austurlandi.
Bifreið lögreglunnar á Austurlandi. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan á Egilsstöðum hefur þurft að stöðva töluverðan fjölda ökumanna vegna hraðaksturs í dag.

„Við viljum biðja fólk þegar það er að fara heim eftir helgina að fara varlega og slaka á bensínfætinum. Menn eru að flýta sér dálítið,“ segir Davíð Auðbergsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, spurður út í umferðina í dag. 

Umferðin hefur annars oft verið meiri á þessum degi, bætir hann við.

Hann segir helgina hafa gengið ágætlega á heildina litið. Skemmtanalífið hafi gengið vel og ekkert stórt komið upp á.

Umferðin á Vesturlandi hefur verið að þyngjast en allt hefur gengið vel fyrir sig, að sögn varðstjóra. Eitthvað hefur þó verið um hraðakstur.

Að sögn lögreglunnar á Blönduósi hefur umferðin gengið vel það sem af er degi. Töluverður straumur liggur suður og hefur hraðakstur verið lítill sem enginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert