Tengdir hópar skimaðir í stað slembiúrtaka

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skimun Íslenskrar erfðagreiningar vegna kórónuveirunnar verður enn markvissari en áður. Hætt verður að taka slembiúrtök og þess í stað verða skimaðir hópar fólks sem tengjast þeim sem hafa smitast í annarri hópsýkingunni sem er í gangi í samfélaginu.

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, spurður út í niðurstöðu fundarins sem hann átti í dag með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni, Ölmu Möller landlækni, smitrakningarteymi almannavarna og Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði.

Skimun hópanna verður samvinnuverkefni á milli Íslenskrar erfðagreiningar og smitrakningarteymisins. „Sú samvinna hefur gengið mjög vel. Það er mjög gaman að vinna með þessu fólki.“

Kári segir að fundurinn í dag hafi verið haldinn vegna þess að hópurinn hafi áhyggjur af smitinu af völdum veirunnar, sem sé „nokkuð víða en þó ekki úti um allt“. Eitt mynstur af stökkbreytingum er í gangi sem þýðir að skimunin á landamærunum er að virka nokkuð vel, að sögn Kára. Það séu góðar fréttir. 

Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannfundi í dag.
Þórólfur Guðnason og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannfundi í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Einn eða hundrað 

„Slæmu fréttirnar eru að þetta eru allt saman samfélagssmit sem við erum að takast á við núna. Þetta er að berast frá manni til manns innan íslensks samfélags og það sem meira er, er að það eru sautján aðilar sem hafa sýkst af þessari veiru, veiru með þetta stökkbreytingamynstur,“ segir Kári og nefnir að þetta séu sjálfstæðir aðilar sem ekki hefur tekist að tengja saman með rakningu. Það bendi til þess að sýktir einstaklingar séu úti í samfélaginu sem hafi tengt á milli þeirra. „Hvort þeir eru einn eða hundrað vitum við ekki.“

Ljóst eftir viku, tíu daga

Hann segir veiruna haga sér svolítið eins og í öðrum faröldrum af veirusjúkdómum sem byrji á nokkrum tilfellum, síðan í nokkrum hópum og síðan breiðist veiran víðar út. Hvort núverandi ráðstafanir dugi til að ná utan um smitið eigi eftir að koma í ljós.

„Ég reikna með því að á næstu viku, tíu dögum fáist úr því skorið hvora leiðina þetta fer,“ segir Kári og bendir á að seinni bylgja veirunnar sé að spretta upp úti um allt í löndunum í kringum okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert