Tíu útköll vegna hávaða

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í tíu skipti vegna hávaða og ónæðis í heimahúsum frá því klukkan 17 í gær þangað til klukkan 5 í morgun. Alls voru 70 mál bókuð hjá lögreglunni á tímabilinu og tveir vistaðir í fangageymslum lögreglunnar. 

Fimm ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Ástandið var svipað aðfaranótt sunnudags og skoraði lögreglan á höfuðborgarbúa að gæta stillingar.

„Þessi verslunarmannahelgi er ekki eins og við eigum að venjast. Það er ekki bjóðandi að halda brjáluð partý langt fram eftir nóttu. Við höfum fengið fjölmargar kvartanir um það að fólk geti ekki fengið sinn nætursvefn út af samkvæmishávaða sem stendur oft og tíðum fram til morguns.

Sumir þurfa einfaldlega að mæta snemma til vinnu þótt það sé helgi. Við höfum gert okkar besta í að stöðva hávaðasöm samkvæmi og munum halda því áfram,“ sagði í Facebook-færslu lögreglunnar í gær. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert