30 í sóttkví eftir smit hjá sjúkaþjálfara

Þrjátíu skjólstæðingar á sjúkraþjálfunarstöðinni Stíg á Akureyri hafa verið sendir í sóttkví eftir að sjúkraþjálfari á stöðinni greindist með kórónuveiruna um helgina. 

Þuríður Sólveig Árnadóttir, eigandi Stígs, segir að aðrir sjúkraþjálfarar á stofunni hafi verið í sumarfríi þegar smitið kom upp. Aðeins aðstoðarmaður umrædds sjúkraþjálfara hafi því þurft að fara í sóttkví. 

„Hún var sem betur fer bara ein að vinna í síðustu viku. Hún fann fyrir einkennum á fimmtudag, fór í sýnatöku á föstudag og greindist í kjölfarið. Allir hennar skjólstæðingar eru komnir í sóttkví en það náði svo sem ekkert víðar,“ segir Þuríður í samtali við mbl.is. 

Þuríður segir að stofunni hafi ekki borist fyrirmæli um að sótthreinsa snertifleti. 

„Þeir telja að þetta hverfi af snertiflötum eftir nokkra daga og við hin erum áfram í sumarfríi út vikuna en auðvitað höfum við sótthreinsað allt frá því að þetta byrjaði fyrst. Við höldum bara áfram að þrífa og sótthreinsa, höfum aldrei slakað á í því,“ segir Þuríður. 

Þuríður segir að ekki sé búið að rekja uppruna smitsins.

mbl.is