Dansi línudans með nýjum skilmálum

Borgun hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum að breytingar þessar taki gildi …
Borgun hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum að breytingar þessar taki gildi 1. október og að veltutryggingu verði haldið eftir í 6 mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir kortafyrirtækin dansa línudans með skilmálabreytingum sem setji viðskiptavini þeirra í erfiðari stöðu og auki þannig eigin áhættu. Borgun hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum að 10% heildarfjárhæðar allra færslna verði haldið eftir með svokallaðri veltutryggingu.

Jóhannes Þór Skúlason segir það algjörlega óásættanlegt að greiðslum fyrir þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi sé haldið eftir.

„Það hefur verið ýmislegt sem kortafyrirtækin hafa verið að breyta hjá sér frá því í vor og það er að vissu leyti eðlilegt því áhættan hefur að sjálfsögðu aukist hjá þeim,“ segir Jóhannes Þór í samtali við mbl.is, en fyrst var fjallað um málið í Fréttablaðinu.

Algjörlega óásættanlegt

„Fyrir okkur þá snýst þetta um þrenns konar greiðslur, og þegar verið er að greiða fyrir þjónustu með löngum fyrirvara þá er alveg eðlilegt að kortafyrirtækin sjái það sem töluverða áhættu í núverandi ástandi,“ segir Jóhannes Þór. „Í öðru lagi er um að ræða greiðslur sem greiddar eru fyrir fram en með svokölluðum "non-refundable" skilmálum milli ferðaþjónustufyrirtækisins og viðskiptavinarins. Okkar afstaða hefur verið sú að þá eigi þeir skilmálar að gilda, það eru óendurkræfar greiðslur. Kortafyrirtækin líta aðeins öðruvísi á málið og þar takast á skilmálar Það hefur ekki verið skorið úr um hvorir eru réttari og á meðan það hefur ekki verið gert þá hafa kortafyrirtækin farið sínu fram.“

Jóhannes Þór Skúlason segir það algjörlega óásættanlegt að greiðslum fyrir …
Jóhannes Þór Skúlason segir það algjörlega óásættanlegt að greiðslum fyrir þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi sé haldið eftir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Síðan er í þriðja lagi þessi tilfelli þegar um er að ræða greiðslu fyrir þjónustu sem þegar hefur  verið veitt. Ég kem til þín og greiði fyrir þjónustu með greiðslukorti og fæ hana afhenta. Þá er augljóslega engin endurgreiðsluáhætta til staðar lengur fyrir kortafyrirtækið, þannig að það er algjörlega óásættanlegt í öllum tilfellum, að það sé haldið eftir greiðslum sem slíkt gildir um. Þetta á að vera algjörlega klárt og skýrt og það er óásættanlegt að verið sé að taka hluta af þessu eða halda eftir greiðslu á þessum fjármunum í lengri tíma.“

Borgun hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum að breytingar þessar taki gildi 1. október og að veltutryggingu verði haldið eftir í 6 mánuði.

Hagi sér í samræmi við almenna skynsemi

Jóhannes Þór segir að næsta skref sé að ræða við  Borgun og fá útskýringar fyrirtækisins og rök fyrir fyrirhugaðri skilmálabreytingu. „Skilmálar kortafyrirtækja gagnvart þessum fyrirtækjum eru mjög sterkir, í rauninni allt of sterkir ef þú spyrð mig, en þeir verða hins vegar að haga sér í samræmi við almenna skynsemi, vegna þess að ef þessi fyrirtæki ganga of langt í að halda eftir fjármunum þá eru þau einfaldlega að auka eigin áhættu.“

„Þá eru peningar ekki að komast til fyrirtækjanna í ferðaþjónustunni sem annars hefði gert það, sem þýðir þá að þau hafa minna lausafé að spila úr og sem þýðir þá að þau eru í meiri áhættu að lenda í alvarlegum vanda. Og ef þau lenda í alvarlegum vanda þá er það töluverð áhætta fyrir þessi kortafyrirtæki.“

„Þetta er töluverður línudans, myndi ég segja í breytingum á þessum skilmálum kortafyrirtækjanna, að þau gangi ekki of langt og verði þannig þess valdandi að það verði meiri vandi hjá fyrirtækjum sem þau eru í viðskiptum við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert