Heilsugæslan fjölgar sýnatökum

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson. Ljósmynd/Lögreglan

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ætlar að fjölga sýnatökum vegna kórónuveirunnar næstu daga og verða sýni tekin á öllum heilsugæslustöðvum umdæmisins á hverjum degi næstu daga.

Þetta kom fram í máli Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á upplýsingafundi almannavarna. Hann segir sýnatökum hjá fólki sem hefur einkenni kórónuveirunnar hafa fjölgað undanfarna daga og muni fjölga enn frekar næstu daga.

Til að anna eftirspurn verður sýnatökutjald tekið í notkun á Suðurlandsbraut, þar sem fólk getur keyrt í gegn, jafnvel í tvöfaldri röð, og látið taka sýni úr sér úr bílnum.

Óskar sagði mikilvægt að fólk hringdi á undan sér og léti meta hvort tilefni væri til sýnatöku og að gefnu tilefni minnti hann á að teldi heilbrigðisstarfsfólk að einstaklingur þyrfti að fara í sýnatöku væri grunur um kórónuveirusmit og að því ætti fólk að einangra sig þar til niðurstaða sýnatöku lægi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert