Reykjavíkurmaraþoninu aflýst

Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið aflýst vegna faraldurs kórónuveirunnar.
Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið aflýst vegna faraldurs kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram átti að fara 22. ágúst næstkomandi hefur verið aflýst. 

Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, segir ekki annað hafa verið í stöðunni í ljósi nýrra tilmæla almannavarna sem tóku gildi 31. júlí síðastliðinn. 

„Ef það er einhver hætta á að þetta hafi slæm áhrif varðandi kórónuveiruna var náttúrulega ekki um annað að ræða. En þetta var erfið ákvörðun fyrir þær sakir að hlaupið hefur verið haldið 36 ár í röð og margir hlauparar eru örugglega svekktir. En svona er lífið,“ segir Frímann. 

„Við ætlum að reyna að halda áfram að safna áheitum og fólk getur þá bara hlaupið heima eða hvernig sem það er. Við leggjum áherslu á það að halda söfnuninni á lofti þannig að góðgerðarfélögin verði fyrir minni skaða,“ segir Frímann, en þátttakendur í maraþoninu safna yfirleitt áheitum fyrir góðgerðarfélög á Íslandi. 

„Við ætlum svo að gera þetta þannig að allir verða sjálfkrafa skráðir þátttakendur á næsta ári svo að þeir sem vilja geta tekið þátt á næsta ári á því gjaldi sem þeir borguðu í ár, en ef hins vegar einhverjir kjósa að fá endurgreitt munum við endurgreiða að fullu. Vonandi eru allir sáttir við það. Það er fúlt að þurfa að hætta við en svona er þetta,“ segir Frímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert