Telja sig geta skotið upp nokkrum bombum

Skemmtanahald fór að jafnaði vel fram um helgina í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Greinilegt var að margar fjölskyldur sameinuðu sitt fólk í sumarbústöðum eða á „ættaróðulum“ og fór það almennt vel fram, segir í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

„Einhver afskipti þurfti að hafa af hávaða í heimahúsum í þéttbýlinu og fréttir bárust af hópi hrossa sem hlupu í girðingar þegar einhver tók sig til í uppsveitum Árnessýslu og fór að skjóta upp flugeldum.

Í þessum tilfellum er jafnan um að ræða vanþekkingu þeirra sem koma í dreifbýlið og telja sig mega skjóta „einni“ tertu eða „nokkrum“ bombum. Slíkt er óheimilt nema með leyfi lögreglustjóra og leyfi til flugeldasýninga er almennt ekki veitt nema um sé að ræða bæjarhátíðir þar sem eigendum búfjár gefst færi á að gera ráðstafanir í tíma því búfénaður, sérstaklega hross, fælist við lætin og þá standa engar girðingar fyrir. Dæmi eru um alvarlega slösuð dýr eftir slík ævintýri,“ segir í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Lögreglan segir að út frá sjónarmiðum löggæslunnar hafi verslunarmannahelgin verið róleg og greinilegt að menn tóku ábyrgð og gættu þess að vera almennt ekki með samkomur sem sprengdu fjöldatakmarkanir sem tóku gildi fyrir helgina vegna fjölgunar virkra COVID-19-smita í landinu. 

„Lögreglumenn fóru eftirlitsferðir á veitingastaði í umdæminu vegna þeirra ráðstafana sem þar þurfti að gera. Í heildina var niðurstaðan sú að verið væri að framfylgja fyrirmælum eins og mögulegt var en þó komu upp atvik þar sem meiri mannfjöldi var kominn inn á veitingastaði en svo að tækist að halda tveggja metra reglunni nema í huganum. Þar var rætt við rekstraraðila og hlutunum kippt í liðinn hið snarasta.“

Fjölmargir ökumenn voru stöðvaðir um helgina og ástand þeirra og réttindi könnuð. 114 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Af þeim voru 8 á vegarkafla innanbæjar, ýmist á Selfossi, Hellu eða Höfn þar sem leyfður hraði er 50 km/klst. Aðrir voru á 90 km vegi og á hraða allt upp í 138 km/klst.

Fjórir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis á tímabilinu og aðrir 4 eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Níu ökumenn reyndust án ökuréttinda við akstur bifreiða sinna. Af þeim höfðu 5 verið sviptir ökuréttindum vegna fyrri brota en hinir höfðu aldrei öðlast réttindi eða þau runnið út fyrir löngu.

Lögreglumenn fengu aðstoð fíkniefnaleitarhunds og þjálfara hans frá Fangelsismálastofnun um helgina. Farið var um tjaldsvæði og komu upp 7 mál þar sem einstaklingar reyndust með fíkniefni í fórum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert