Tillögur að matsáætlun borgarlínu kynntar

Samkvæmt tillögunum er fyrstu lotu skipt upp í átta mismunandi …
Samkvæmt tillögunum er fyrstu lotu skipt upp í átta mismunandi flokka, eftir því í gegnum hvernig svæði borgarlínan liggur. Kort/verkefnastofa borgarlínu

Verkefnastofa borgarlínu hefur nú kynnt tillögur sínar að matsáætlun borgarlínu. Stofan óskaði eftir því við Skipulagsstofnun að fá heimild til þess að vinna tillögur að umhverfismati fyrstu lotu borgarlínu. Tillögunum er ætlað að varpa ljósi á hvernig standa megi að umhverfismati fyrir verkefnið. Opið er fyrir athugasemdir um tillögurnar til 25. ágúst næstkomandi.

Verkefnastofa borgarlínu kynnti drög að þessum tillögum um umhverfismat 14. maí síðastliðinn en nú hafa tillögurnar verið formlega birtar. Í kjölfarið kemur svo út frummatsskýrsla þar sem vinna við sjálft matið hefst. Þegar Skipulagsstofnun hefur tekið frummatsskýrsluna til meðferðar mun hið eiginlega umhverfismat svo hefjast.

Tilgangur umhverfismatsins verður meðal annars, eins og segir í tillögum verkefnastofu borgarlínu, að fjalla um og svara spurningum um hvernig leiðarkerfi borgarlínu verður, hver áhrif borgarlínu verða á aðrar samgönguleiðir og hver framkvæmdakostnaður við gerð borgarlínu verður. Umhverfismat mun því meta hver áhrif borgarlínu verða á bæði umhverfi og samfélag.

Samkvæmt tillögunum er fyrstu lotu skipt upp í átta mismunandi flokka, eftir því í gegnum hvernig svæði borgarlínan liggur. Þannig verður reynt að haga framkvæmd og skipulagi borgarlínu með þeim hætti að hún henti best hverju svæði fyrir sig.

Samkvæmt samgöngusáttmála, sem undirritaður var milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í september á síðasta ári, verður fyrsta lota borgarlínu 13 km löng milli Ártúnshöfða og Hamraborgar með viðkomu í miðbæ Reykjavíkur. Áætlanir gera ráð fyrir að í fyrstu lotu verði gerðar 24 biðstöðvar en það kann að breytast í hönnunarferlinu, segir í tillögum verkefnastofunnar.

mbl.is