Er hægt að treysta Google í baráttunni?

mbl.is/Kristinn Magnússon

Alma D. Möller landlæknir segir að hvorki Google né Apple muni safna neinum persónuupplýsingum með bluetooth-tækni sem er væntanleg í ágúst og miðar að því að auðvelda smitrakningu. Tæknirisinn Google hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir það hvernig hann fer með persónuupplýsingar og spurði blaðamaður Ölmu því hvort hægt væri að treysta tækni sem Google legði fram í baráttunni við faraldurinn og snerti viðkvæmar persónuupplýsingar um staðsetningu fólks.

„Engum persónuupplýsingum er safnað með þessari tækni. Það er bara símtækið sem fær gögnin,“ segir Alma í samtali við mbl.is. 

Alma fundaði með risunum

Alma og fleiri funduðu með tæknirisunum tveimur í byrjun júní vegna þess að tillaga landlæknisembættisins hérlendis var sú að bluetooth og GPS staðsetningartæknin sem notuð er í smitrakningarappinu væru sameinaðar í einu appi. Það vildu tæknirisarnir ekki, að sögn Ölmu, en það er t.a.m. vegna mikillar rafmagnseyðslu sem slíkt krefst. 

„Þau láta sér ofboðslega annt um persónuvernd vegna þess að þau eru að hugsa þetta fyrir allan heiminn og það búa ekki allir í lýðræðisríki eins og við,“ segir Alma.

Skiptast á leynikóðum

Persónuvernd í hverju landi mun þurfa að samþykkja bluetooth-tæknina sem felst í því að þegar símar eru nálægt hver öðrum og virkni bluetooth-tækninnar hefur verið heimiluð af eigendum símanna skiptast símarnir á leynikóðum. 

„Þú veist ekki hvaða gögn ég fæ og það veit enginn hvaða gögn þú færð og það veit enginn hver á þessa síma. Ég held að þeta sé eins öruggt og hægt er en auðvitað mun okkar persónuvernd þurfa að samþykkja þetta,“ segir Alma. 

En hvernig nýtist tæknin ef enginn veit hvaða upplýsingar tilheyra hvaða síma? 

„Ef einstaklingur greinist smitaður og hefur verið nálægt öðrum þá fá þeir sem hafa verið nálægt honum skilaboð um að hafa samband við rakningarteymið vegna þess að þeir hafi verið í grennd við smitaðan einstakling,“ segir Alma. 

190.000 með smitrakningarappið

Eins og kom fram hér að ofan er smitrakningarappið aðskilið frá væntanlegri bluetooth-tækni. 190.000 virk tæki eru með smitrakningarappið eins og stendur og hafa 63.000 hlaðið því niður síðan í júní. 32.000 hafa fjarlægt appið og sagði Alma á upplýsingafundi almannavarna í dag að langlíklegast sé að þeir sem hafi fjarlægt appið séu farnir af landi brott. 

„Við lítum svo á að mikill meirihluti ferðamanna bregðist við þessari áskorun: að hlaða niður appinu og er það vel. Við biðlum áfram til Íslendinga um að hlaða appinu niður,“ sagði Alma. 

Stundum vantar gögn vegna rakningar

Smitrakning varð flóknari þegar fólk fór að fara meira um landið, að sögn Ölmu.

„Appið hjálpar til við að greina ferðir og rekja saman ferðir þegar upp kemur smit og það er mikilvægur hlekkur í okkar varnarkeðju,“ sagði Alma og tók fram að appið skráði einungis ferðir í símtækið og safnaði gögnum því ekki miðlægt. 

Þá sagði Alma að smitrakningarteymið hafi orðið vart við að gögn um ferðir fólks vanti í tæki sem eru með appið. Það er líklega vegna þess hvernig fólk stillir appið en merkja þarf sérstaklega við að appið megi alltaf rekja ferðir fólks. Upplýsingar um þetta koma inn á covid.is innan tíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert