Hafi ekki áhrif á 97% viðskiptavina Borgunar

Greiðslumiðlun­ar­fyr­ir­tækið Borg­un segir það alrangt að það hyggist fara fram á 10% tryggingu í sex mánuði af veltu allra viðskiptavina sinna frá og með 1. október næstkomandi.

Greint var frá því í fjölmiðlum í gær en Borgun segir að tölvupóstur hafi verið sendur á um 3% viðskiptavina Borgunar og eigi einungis við um þá.

Allt eru þetta aðilar sem eru í þeirri stöðu að selja mestmegnis þjónustu áður en hún er veitt. Ekki er um skilmálabreytingu að ræða, líkt og ranglega hefur komið fram, heldur er um að ræða aðgerð sem er heimil í gildandi skilmálum og snýr að því að lágmarka áhættu,“ segir í tilkynningu frá Borgun.

Þar eru enn fremur tilgreind nokkur atriði sem fyrirtækið vill koma á framfæri:

  1. Engar breytingar hafa verið gerðar á viðskiptaskilmálum Borgunar.
  2. 97% af viðskiptavinum Borgunar verða ekki fyrir neinum áhrifum.
  3. Veltutryggingunni er einungis beitt í tilfelli ferðaþjónustufyrirtækja þar sem nauðsynlegt er að tryggja að hægt sé að standa við skuldbindingar við korthafa sem keypt hafa vörur og þjónustu fram í tímann. 
  4. Borgun mun halda áfram að styðja við ferðaþjónustuna í landinu eins og fyrirtækið hefur gert síðustu mánuði. Fyrirtækið hefur á þessu tímabili ekki hert sína skilmála umfram aðra keppinauta, nema síður sé.
  5. Fyrir tilstilli sérstakra aðgerða, sem Borgun greip til, hefur ferðaþjónustan notið meira en 90 daga vaxtalausrar fjármögnunar á skuldbindingum sínum gagnvart ferðamönnum sem keypt hafa ferðir, gistingu og afþreyingu fram í tímann.
  6. Þá skal skýrt tekið fram að hjá Borgun verður engum greiðslum haldið eftir vegna vöru eða þjónustu sem þegar hefur verið veitt. Þetta á við um alla viðskiptavini Borgunar, í ferðaþjónustu sem og í öðrum greinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert